Ólafía Hrönn leikur Skugga-Svein
13.11.2020
Leikfélag Akureyrar, í samstarfi við Þjóðleikhúsið, setur gamanleikinn Skugga-Svein eftir þjóðskáldið Matthías Jochumsson á svið Samkomuhússins haustið 2021. Með hlutverk Skugga-Sveins fer Ólafía Hrönn Jónsdóttir og leikstjóri er Marta Nordal. Áætlað var að frumsýna haustið 2020 en sýningar frestuðust vegna covid. Í tilefni 100 ára dánardags skáldsins í ár ríður Þjóðleikhúsið á vaðið með hljóðleikhúsi 19. nóvember með völdum brotum úr Skugga-Sveini í leikstjórn Benedikt Erlingssonar.
Skugga-Sveinn var fyrst settur á svið í Reykjavík árið 1862 og varla hefur nokkurt íslenskt leikrit verið leikið oftar hér á landi. Verkið er alþýðlegur gamanleikur með söngvum og efnið hjátrú, ótti við hið ókunna, ást og hatur.