Fara í efni

Ólafur Arnalds er einn af Meisturum strengjanna

Tónskáldið Ólafur Arnalds verður einn af þremur meistaratónskáldum sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands spilar verk eftir þann 26. janúar næstkomandi.

Ólafur hefur fyrir löngu getið sér gott orð og risið hratt til metorða hérlendis sem erlendis. Hann hlaut Bafta verðlaun fyrir tónlistina í Broadchurch og hefur hann einnig verið tilnefndur til Grammy og Emmy verðlauna. Hljóðmynd Ólafs er gjarnan lágstemmd og stórbrotin í senn, hann hefur einstakt lag á að láta hljóðfærin tala og verður án vafa einstök upplifun að heyra Sinfóníuhljómsveit Norðurlands spila verkin Öldurót og Spiral eftir Ólaf. Önnur verk á tónleikunum verða; meginstefið úr Platoon, Adagio fyrir strengi eftir Barber og Seranade fyrir strengi í C – dúr eftir Tchaikovsky.

Áhugafólk um tónlist, kvikmyndir og almenna hugarró ættu ekki að láta þennan viðburð framhjá sér fara þar sem efnisskránni er lýst sem vin í eyðimörk skarkalans.

Til baka