Fara í efni

Óperutöfrar á Akureyrarvöku

Kraftmiklir og glæsilegir tónleikar þar sem tilfinningarnar fá að njóta sín.

Hér sameina krafta sína undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar hluti af landsliði íslenskra einsöngvara og skagfirski Karlakórinn Heimir. Einsöngvarar eru  þau Helga Rós Indriðadóttir, Sigríður Aðalsteinsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Ágúst Ólafsson. Á efnisskránni eru klassískar perlur úr óperunum: La Bohème, Tosca, Rakaranum frá Sevilla Tannhäuser og Carmen

Einsöngvararnir eiga öll glæsilegan söngferil og söngnám að baki.

 Helga Rós Indriðadóttir, sópran lauk m.a. mastersprófi frá óperudeildinni í Tónlistarskólanum í Stuttgart. Eftir það var hún fastráðin til átta ára við Óperuhúsið í Stuttgart þar sem hún debúteraði sem Freyja í Rínargulli Wagners. Helga Rós söng þar fjölda annarra hlutverka m.a. Antoníu í Ævintýrum Hoffmanns, Zerlinu í Don Giovanni, Ortlinde í Valkyrjunum og Woglinde í Ragnarökum. Helga Rós hefur einnig sungið á fjölda ljóða- og kammertónleikum bæði hér heima og erlendis m.a. til að fylgja eftir geisladisk með sönglögum Jórunnar Viðar sem hún gaf út ásamt Guðrúnu Dalíu Salómonsdóttur píanóleikara árið 2009. Helga Rós  hefur sungið mörg af stærri konsertverkum eins og Sálumessur Mozarts og Verdis, Sköpunina og Árstíðirnar. Haustið 2010 tók Helga Rós tímabundið við stjórn Karlakórsins Heimis.

Sigríður Aðalsteinsdóttir,mezzósópran stundaði m.a. nám við, Tónlistarskólann og Háskólann í Vínarborg. Hún lauk prófi í óperusöng frá Tónlistarháskólanum árið 2000 með hæstu einkunn. Hún  hóf söngferil sinn við Þjóðaróperuna í Vínarborg og söng þar ýmis hlutverk frá 1997 – 2002. Hún hefur  einnig sungið ýmis hlutverk  við  Íslensku óperuna, komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Sigríður hefur haldið fjölda ljóðatónleika og komið fram sem einsöngvari með ýmsum kórum. Auk þess að starfa sem einsöngvari kennir hún söng við Söngskóla Sigurðar Demetz og rekur farandsöngskólann og söngþjónustuna syngja.is. 

Gissur Páll Gissurarson, tenór á langan feril að baki en aðeins ellefu ára þreytti  hann frumraun sína í  titilhlutverkinu í Oliver Twist. Árið 2001 hóf  hann nám  við Conservatorio G.B Martini í Bologna. Fyrsta óperuhlutverk Gissurar  á Ítalíu var Ruiz í óperunni Il Trovatore í Ravenna. Árið 2004 tók hann þátt í uppfærslu á Così fan tutte, undir stjórn Claudio Abbado í Ferrara, Reggio Emilia og Modena. Gissur Páll hefur m.a.sungið  hlutverk Danilos í Kátu ekkjunni, hlutverk Nemorinos í Ástardrykknum og í Rakaranum í Sevilla.  Hann hefur einnig sungið í  uppfærslum á Werther eftir Massenet og Les Mammelles de Tiresias eftir Poulenc svo fátt eitt sé nefnt. Í desember 2010 kom út fyrsta sólóplata Gissurar Páls Ideale sem hefur verið mjög vel tekið.

Ágúst Ólafsson, barítón stundaði m.a.nám við við Sibelíusar Akademíuna. Ágúst hefur ávallt haft mikinn áhuga á þýskum ljóðasöng og hefur sungið á ljóðasöngstónleikum víða, m.a. í Filharmonie í Berlín og Wigmore Hall í Lundúnum. Hann hefur sungið einsöng með kórum og hljómsveitum víða um Evrópu í verkum eins og Deutsches Requiem eftir Brahms, Messiah eftir Händel, Sálumessu Mozarts og passíum og kantötum J.S.Bachs.  Ágúst hefur einnig sungið fjölda hlutverka hjá Íslensku óperunni, m.a. titilhlutverkið í óperutryllinum Sweeney Todd, hlutverk Skuggans í Rake´s Progress, Harlekin í Ariadne á Naxos,  Belcore í Ástardrykknum og  hlutverk Álfs í Hel. Árið 2010 hlaut hann íslensku leiklistarverðlaunin Grímunasem söngvari ársins fyrir hlutverk sitt í Ástardrykknum hjá Íslensku óperunni. Síðastliðið sumar flutti Ágúst þrjá ljóðaflokka Schuberts ásamt píanóleikaranum Gerrit Schuil á þrennum tónleikum á Listahátíð en þeir  unnu íslensku tónlistarverðlaunin 2011 sem tónlistarflytjandi ársins í kjölfarið.  Í haust mun Ágúst syngja hlutverk Papagenós í uppsetningu Íslensku óperunnar á Töfraflautunni.

Til baka