Fara í efni

Opnunardagskrá Menningarhússins Hofs tekur á sig mynd

Formleg vígsla Hofs er á Akureyrarvöku dagana 27.- 29. ágúst. Dagskráin þessa helgi er nú að taka á sig mynd. Föstudagkvöldið 27. ágúst verður boðið til tónleika í Hofi þar sem listakonan Lay Low kemur fram ásamt ungu tónlistarfólki á svæðinu.  Verkefnið er unnið í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri og Tónlistarskóla Eyjafjarðar og styrkt af Menningarráði Eyþings.  Norðlenskt tónlistarfólk vinnur nú að dagskrá þessara tónleika og að útsetningum en á efnisskrá verður tónlist listakonunnar Lay Low ásamt tónlist eftir norðlenska höfunda.

 

Laugardaginn 28. ágúst verður eiginleg vígsluathöfn Hofs. Þar mun Sinfóníuhljómsveit Norðurlands frumflytja tónverkið  HYMNOS eftir Hafliða Hallgrímsson sem samið er sérstaklega fyrir þetta tækifæri en auk þess mun Kristján Jóhannsson syngja með sinfóníunni. Sönghópurinn Hymnodia mun syngja og Leikfélag Akureyrar sýnir atriði úr Rocky Horror sem frumsýnt verður í Hofi 3. September.  Að kvöldi laugardagsins gefst Akureyringum og gestum kostur á að skoða Menningarhúsið, hlýða á ljúfa tóna og upplifa lífið í Hofi.

 

Sunnudaginn 29. ágúst á afmælisdegi Akureyrarbæjar verða hátíðartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Þar flytur sinfónían Hymnos eftir Hafliða Hallgrímsson, píanókonsert í a-moll eftir  Edvard Grieg og Sinfóníu nr. 9 eftir Antonin Dvorák. Einleikari er Víkingur Heiðar Ólafsson og stjórnandi Guðmundur Óli Gunnarsson.

 

Auk áður nefndra viðburða verður fjöldi annarra viðburða  þessa helgi sem tengjast bæði opnun Hofs og Akureyrarvöku. Nægir þar að nefna myndlistarsýningnar, ljósmyndasýningu, sýningu frá framkvæmdartíma Hofs og margt fleira.

 

Nánari dagskrá þessa fyrsta starfsárs Hofs verður kynnt í byrjun ágúst en óhætt er að lofa því að allir muni finna eitthvað við sitt hæfi þar enda fjöldi aðila sem kemur til með að standa fyrir viðburðum í húsinu.

 

 

 

Til baka