Örfáir miðar eftir á Íslandsklukkuna
Íslandsklukkan hlaut fern Grímuverðlaun s.l. vor og féllu verðlaun fyrir bestu tónlistina í skaut þeim Norðlendingum Eiríki G Stephensen og Hjörleifi Hjartarsyni, en saman mynda þeir hljómsveitina velþokkuðu Hundur í óskilum. Þeir hafa farið fleiri ferðir suður yfir heiðar til Íslandsklukkuæfinga og -sýninga en tölu verður á komið. Það verður því kærkomið fyrir þá félaga að fá leikhópinn á sinn heimavöll.
Íslandsklukkan hefur í gegnum tíðina notið gífurlegra vinsælda hjá íslensku þjóðinni, jafnt á bók sem á leiksviði. Verkið var fyrst sett á svið þegar Þjóðleikhúsið var vígt árið 1950 og var sú sýning ein af þremur opnunarsýningum leikhússins. Svipmiklar aðalpersónur verksins, Jón Hreggviðsson, Snæfríður Íslandssól og Arnas Arnæus, hafa eignast vissan stað í hjarta Íslendinga. Í því þjóðfélagslega umróti sem við lifum nú, á þetta stórvirki um tilvistarspurningar sem lítil þjóð stendur frammi fyrir brýnt erindi við okkur.
Nánari upplýsingar um miðakaup má finna hér eða í miðasölu Hofs í síma 450 1000, opin alla virka daga kl. 13-19.