Pörupiltar fræddu unglinga um kynlíf
Menningarhúsið Hof bauð öllum 10. bekkingum á Eyjafjarðarsvæðinu auk nýnemum í MA og VMA á Kynfræðslu Pörupilta í samstarfi við Sparisjóð Höfðhverfinga. Þetta er sprenghlægilegt uppistand um eldfimt efni sem er unglingum afar hugleikið. Hátt í 900 nemendur og kennarar þáðu boðið og ekki var annað að sjá en að krakkarnir skemmtu sér konunglega.
„Þetta var geðveikt,“ sagði Sindri Snær Stefánsson, nemandi í Dalvíkurskóla, eftir sýninguna. Skólasystur hans Hugrún Lind Bjarnadóttir og Áróra Björk Oliversdóttir tóku í sama streng. „Það er líka bara mjög gaman að hafa farið á þetta því það er ekki svo mikil kynfræðsla í skólanum. Það vantar eiginlega bara kynfræðslu á Íslandi,“ sagði Áróra. Þær stelpurnar voru sammála um að húmor væri góð leið til að koma svona fræðslu til skila. „Krakkarnir taka þetta frekar til sín þegar þetta er svona fyndið,“ sagði Hugrún.
Pörupiltar sem leiknir eru af Alexíu Björgu Jóhannesdóttur, Maríu Pálsdóttur og Sólveigu Guðmundsdóttur, hafa troðið upp víða á undanförnum misserum og velt fyrir sér samskiptum kynjanna við góðan orðstýr.