Fara í efni

Freyja Reynisdóttir opnar myndlistarsýningu þann 7. nóvember í Hofi

Myndlistarkonan Freyja Reynisdóttir opnar sýninguna Sannleiks-breytur laugardaginn 7. nóvember í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri klukkan 16.

Freyja er fædd árið 1989 og hefur undanfarið ár búið og starfað sem myndlistamaður á Akureyri eftir nokkurra ára dvöl í Berlín, Þýskalandi. Hún útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri árið 2014 og stundar nú meistaranám í frjálsri myndlist við Listaháskóla Íslands. Auk fjölda sýninga hér á landi hefur hún sýnt verk sín, bæði á einka- og samsýningum, í Danmörku, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi og á Spáni. Þá er hún einn af stofnendum Kaktus listasamsteypunnar á Akureyri.

Freyja segist heilluð af mismunandi skilgreiningum á sannleik.

„Í mínum huga er sannleikur víðfeðmari en þau orð sem ég get safnað saman til að lýsa honum. Skilgreiningar á sannleik eru háðar getu mannsins til að tjá skilning hans á honum. Þær eru leiddar af því sem sammælst hefur verið um í heimi tungumálanna, sem við svo notum til að koma hinu þekkta áleiðis,“ segir Freyja.

Nánar er hægt að lesa um sýninguna á vefslóðinni www.freyjareynisdottir.com

 

Sýningin í Hofi stendur til og með 10. janúar 2021.

Til baka