Fara í efni

Sek fær góðar viðtökur

Hér gefur að líta glefsur úr dómum um verkið: 

"Leikfélag Akureyrar gengur ítrekað fram með dirfsku, metnað, framsækni og samtímaögranir að leiðarljósi. Leikhúsið spyr spurninga sem gott er að spyrja og nú síðast um glæp og refsingu, samlíf manna, siðareglur sem kunna að koma með ólíkum hætti niður á kynjunum og viðurlög við broti á þeim. Gott leikhús." Björn Þorláksson, Akureyri vikublað.

"Alla þá sem vilja láta hreyfa við sér hvet ég til að fara að sjá Sek í Sam­komuhúsinu. Ef orðið hrifinn lýsir því að hrífast af einhverju, hvort heldur sem er í fegurð eða ljótleika var ég mjög hrifinn af þessari sýningu." Hólmkell Hreinsson, Vikudagur

"Það fer ekki milli mála að það liggur mikill listrænn metnaður og leikhússkáldskapur bak við uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Sek og er hún öllum aðstandendum til sóma, ekki síst konunum sem halda hér um alla tauma og setja á svið viðkvæmt efni um sekt í kynferðisbrotum gagnvart börnum af frumleika og dirfsku." Hlín Agnarsdóttir, DV

Sóley Björk hjá netútgáfu Akureyri vikublað skrifar um Sek. "Sek er besta leikverk sem ég man eftir að hafa séð. Ég hef séð mikið af góðum verkum, en ekkert sem er svona fullkomin blanda af fegurð og ljótleika, ást og ótta, harmi og hugrekki, lífi og dauða. Ekkert sem fékk mig til að upplifa jafn sterkt að sýningu lokinni að ég hefði verið að horfa á leiklist eins og hún gerist best, fagurfræðilega og innihaldslega."

"Leikhópurinn allur er í einu orði sagt frábær. Vel samstilltur og hreinn unaður að fylgjast með einbeitingunni og hvað allir gáfu sig verkinu á vald, hver hreyfing svo rétt og hver andardráttur svo réttur. Það var frábært að sjá Þráinn Karlsson á sviðinu  í samkomuhúsinu og strákurinn er í toppformi. Í verkinu leika tvær ungar stúlkur sem skipta sýningunum á milli sín. Á sýningunni sem ég sá var það hin dalvíska Særún Elma Jakobsdóttir sem lék dótturina, leikur hennar var frábær og gæsahúðin gerði vart við sig á köflum. Það er sannarlega óhætt hugsa með tilhlökkun til þess að fá að sjá meira af henni." Júlíus Júlíusson, Dalvík

"Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi að sjá frumsýningu á nýju leikverki eftir Hrafnhildi Hagalín í Samkomuhúsinu á Akureyri í gærkveldi. SEK er hreint út sagt magnað leikverk þar sem allt gekk upp. Til hamingju LA og þið öll sem að þessari frábæru sýningu stóðuð." Pálmi Gunnarsson

"í heildina er hún (uppsetninging) aðstandendum sínum til sóma, hún syndir í manni, sveiflar sporðinum og hrærir upp í einhverju sem maður vill helst ekki vita af í eigin sálarafkimum og hjartaholum og þá er árangri náð." Þorgerður E. Sigurðardóttir í Víðsjárpistli

Til baka