Fara í efni

Sinfóníuhljómsveit Íslands - Loksins í Hofi

Nú eru liðin þrjú ár síðan Sinfóníuhljómsveit Íslands lék síðast á Akureyri, haustið 2008. Þá var leikið í Íþróttahöllinni fyrir fullu húsi og við góðan orðstír. Nú þegar að nýtt og glæsilegt tónlistarhús er risið norðan heiða telja forsvarsmenn hljómsveitarinnar og hljóðfæraleikarar svo sannarlega fulla ástæða fyrir hljómsveitina að heimsækja Akureyri á ný.

Einleikari með hljómsveitinni í þessari heimsókn er Einar Jóhannesson klarinettuleikari en hann hefur um árabil verið meðal fremstu tónlistarmanna landsins. Hann lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1969 og hélt í kjölfarið til náms við Royal College of Music í Lundúnum þar sem hann vann til Frederick Thurston-verðlaunanna. Einar hefur komið fram sem einleikari og hljóðritað fyrir fjölda útvarps- og sjónvarpsstöðva í Evrópu, Asíu, Bandaríkjunum og Ástralíu. Hann hefur gegnt stöðu sólóklarínettuleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 1980, er stofnfélagi Blásarakvintetts Reykjavíkur og leikur með Kammersveit Reykjavíkur.

Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Daníel Bjarnason en hann starfar jöfnum höndum sem hljómsveitarstjóri, tónskáld og útsetjari. Meðal hljómsveita sem hann hefur stjórnað eru London Sinfonietta, Sinfóníuhljómsveit Íslands og hljómsveit Íslensku óperunnar auk þess sem hann er hljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi kammersveitarinnar Ísafoldar. Meðal annarra samstarfsmanna hans má nefna Sigur Rós, Ólöfu Arnalds, Oliviu Pedroli og Hjaltalín. Daníel fékk tvenn verðlaun á Íslensku tónlistarverðlaununum 2010; sem höfundur ársins og fyrir tónverk ársins. Hann hlaut einnig Menningarverðlaun DV 2010 auk þess sem verk hans, Bow to String, var tilnefnt til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2010.

Miðasala tónleikana fer fram í Hofi, s. 450 1000 og hér á vefnum.

Til baka