SN með stórtónleika í Færeyjum ásamt Sinfóníuhljómsveit Færeyja
Sinfóníuhljómsveitir Norðurlands og Færeyja sameinast á stórtónleikum í Þórshöfn í Færeyjum
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands (SinfoniaNord) mun í byrjun febrúar sameinast Sinfóníuhljómsveit Færeyja og mynda eina nútímastórhljómsveit til að halda Íslandsskotna tónleika í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum.
Stórstjörnurnar Eivör Pálsdóttir söngkona, Guðmundur Pétursson gítarleikari og Valgerður Guðnadóttir óperusöngkona verða í brjósti fylkingar þegar sameinaðar hljómsveitirnar flytja tvö íslensk verk og eitt færeyskt. Einnig koma fram meðlimir Kammerkórs Norðurlands og Kórs Sinfóníuhljómsveitar Færeyja.
Verkefnið er samstarfsverkefni Menningarfélags Akureyrar, Norðurlandahússins í Færeyjum og Sinfóníuhljómsveitar Færeyja. Það er hugsað til framtíðar og er því ætlað að auka tækifæri hljómsveitanna og hljóðfæraleikara þeirra til að þróast og vaxa, auk þess að sýna frumsköpun menningarstofnananna víðar en í heimabyggð. Allt er þetta svo liður í að efla menningarsamstarf eyríkjanna tveggja.
Bæjarstjóri Akureyrar, Eiríkur Björn Björgvinsson, ásamt fylgdarliði, fulltrúar Akureyrarstofu og Menningarfélags Akureyrar, auk sendiherra Íslands, munu fylgja hljómsveitinni til Þórshafnar og hitta færeyska embættismenn til að styrkja tengslin og ræða framtíð verkefnisins.
Á næsta ári er stefnt að því að Sinfóníuhljómsveit Færeyja komi til Íslands og haldnir verði Færeyjaskotnir tónleikar í Hofi og Hörpu með sameinuðum hljómsveitunum. Þá er gert ráð fyrir því að töluvert af færeysku og íslensku rokki bætist við uppskriftina.
Verkin sem flutt verða á tónleikunum þann 3. febrúar eru:
Eg skar mítt navn (þjóðlag) í útsetningu Þrándar Bogasonar
Rafgítarkonsert nr.1 eftir Guðmund Pétursson
Völuspá eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson