Skálmöld - aukatónleikar 24. september kl. 23
17.09.2011
Plata þeirra, Baldur, sló óvænt í gegn á árinu og hyggst sveitin flytja allt verkið í heild sinni, frá fyrsta lagi til hins
síðasta. Þar er rakin saga víkingsins Baldurs í kraftmiklu, melódísku þungarokki og metnaðarfullum textum sem hafa að geyma margar
tilvísanir og minni í ætt við fornsögur og forna goðafræði. Tónleikarnir í Hofi verða þeir síðustu sem
Skálmöld heldur á Íslandi áður en sveitin heldur í víking til tónleikahalds um gervalla Evrópu. Ekkert verður til sparað
á tónleikunum, myndefni sem tengist verkinu verður varpað upp á tjald og sögumaður rekur söguna meðfram flutningi sveitarinnar.
Um upphitun sér dúettinn Skeggöld en það er nýtt nafn yfir samstarf þeirra Steindórs Andersen og Hilmars Arnar Hilmarssonar. Þeir hafa lengi
verið í fremstu röð íslendinga þegar kemur að rímum og rímnakveðskap og eru óhræddir við að leika sér með
formið.
Rás 2 mun senda út beint frá tónleiknunum sem hefjast klukkan átta. Uppselt er á þá tónleika og því verður
blásið til aukatónleika klukkan ellefu.
Nánari upplýsingar hér: http://www.menningarhus.is/news/skalmold/