Skólasetning Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar
Skólasetning Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar fer fram í Samkomuhúsinu sunnudaginn 9. september kl 14. Eftir formlega dagskrá, þar sem nemendur eru boðnir velkomnir, námskeiðin og kennarar kynntir, verður boðið upp á kaffi og tækifæri til þess að spjalla við kennarana.
Mjög mikil aukning er í skráningum á námskeiðin. „Við erum í skýjunum með þennan mikla áhuga á leikslistarskólanum en nú er yfir 70 nemendur skráðir í skólann. Við hlökkum mikið til að byrja önnina með ykkur,“ segir Jenný Lára Arnórsdóttir skólastjóri leiklistarskólans.
Leiklistarskóli Leiklistarfélags Akureyrar býður upp á skemmtilegan leiklistarskóla fyrir börn og unglinga í 2.-10. bekk grunnskóla. Í skólanum læra börnin öll helstu undirstöðuatriði leiklistar en fyrst og fremst miðar námið að því að nemendur byggi upp sjálfstraust, hugrekki, aga og tækni, allt með gleðina í fyrirrúmi.