SÓLEY RÓS RÆSTITÆKNIR í Samkomuhúsið!
Hin margrómaða leiksýning Sóley Rós ræstitæknir kemur þann 3. og 4. febrúar í Samkomuhúsið. Sýningin hefur hlotið einróma lof gagnrýnanda og fengið góða aðsókn í Tjarnarbíói í Reykjavík. Verkið er byggt á viðtölum við raunverulega hvunndagshetju frá Akureyri sem hefur átt lygilegt lífshlaup, kynnst mótlæti og sárum missi. Sóley Rós er einstök persóna. Hún er Bjartur í Sumarhúsum, hún er Þóra í Hvammi. Verkið er meinfyndið og grátbroslegt en tekur á mikilvægum málefnum sem allir hafa skoðanir á og varða okkur öll.
Gagnrýnendur segja m.a.
„Saga sem bætir heiminn“ J.S.J. Kvennablaðið,
„Sólveig túlkar sársauka Sóleyjar Rósar af sterkri innlifun sem lætur engan ósnortinn“ S.B.H. Morgunbl
Hún [Sóley Rós] smýgur okkur í hjartastað, afsakið væmnina… Glímu hennar við heilbrigðiskerfið ættu allir starfsmenn þess að kynna sér og allar konur og karlar.“ M.K. Víðsjá á Rás 1.
Höfundar leikverksins eru þær Sólveig Guðmundsdóttir og María Reyndal sem einnig leikstýrir sýningunni og Sólveig túlkar Sóleyju Rós. Sveinn Ólafur Gunnarsson er mótleikari Sólveigar. Sýningin er klukkutíma löng og án hlés.
Það er leikfélagi Akureyrar mikilll heiður að fá í heimsókn þessa frábæru sýningu í Samkomuhúsið. Aðeins eru áætlaðar tvær sýningar. Ekki láta þetta margrómaða verk, sem er sprottið úr norðlenskum veruleika, þér úr greipum renna.