Stefán Boulter opnar sýningu í Hofi á laugardaginn
Myndlistarmaðurinn Stefán Boulter opnar sýninguna sína Eilífð í Augnabliki í Menningarhúsinu Hofi laugardaginn 3. febrúar kl. 16.
Stefán hefur kosið að kalla það sem hann gerir „ljóðrænt raunsæi“. Hann býr til táknmyndir sem eru frásagnarlegs eðlis, bæði persónulegar og byggðar á þekktum og fornum grunni. Hugleiðingar um náttúruna, tilvist okkar í henni og dýrkun hennar skipar þar stóran sess, með áherslu á dýrin og viðveru hluta og áru þeirra. Málverkin endurspegla andleg og fagurfræðileg gildi listsköpunar sem eru sígild og tímalaus. Stefán hefur verið talsmaður nýrra og breyttra heimspekilegra viðhorfa í listsköpun og bera verk hans þess merki.
Stefán Jóhann Boulter er fæddur í Reykjavík 6. júní 1970
Stefán stundaði nám í grafískri hönnun í Tempe, Arizona í Bandaríkjunum 1991-1992 og listnám við Istituto d‘ Arte di Firenze í Flórens á Ítalíu 1994-1996. Hann var aðstoðarmaður Odd Nerdrum í Noregi og Íslandi 2001-2004. Stefán hefur sýnt verk sín í söfnum og galleríum bæði hér heima og erlendis, haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum, m.a. í Massachusetts í Bandaríkjunum, Barcelona á Spáni, Kjarvalsstöðum og Listasafninu á Akureyri. Hann er búsettur á Akureyri og kennir með reglulegu millibili við Myndlistarskólann á Akureyri. Verk Stefáns eru í eigu safnara á Íslandi, Ítalíu, Bandaríkjunum, Bretlandi, Noregi og víðar.
Málverkin á sýningunni eru öll unnin með olíu á striga
Öll velkomin á opnunina.
Hér er hægt að lesa meira um listamanninn.