Steinunn Arnbjörg og stofutónlistin í Hofi á sunnudaginn
Tónleikarnir Steinunn Arnbjörg og stofutónlistin fara fram í Hömrum í Hofi sunnudaginn 14. maí.
Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir er mikilvirkur tónlistarflytjandi og -höfundur sem starfar á Akureyri. Hún er liðtæk og útlærð í barokktónlist og klassík, en hefur einnig einbeitt sér að flutningi og frumflutningi nýrrar tónlistar, auk þess að vera sjálf afkastamikið tónskáld og skáld.
Steinunn fær hér frjálsar hendur til að sníða efnisskrá sem varpar ljósi á viðfangsefni hennar í listum, en leyfir tónleikagestum umfram allt að hlýða á bitastæð kammerverk í meðförum strengjaleikara Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Tenorsöngvarinn ástsæli Eyjólfur Eyjólfsson prýðir efnisskrána með söng sínum samtvinnuðum strengjaleik í sönglögum Steinunnar.
„Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, sá mikilvægi menningarkyndill, er mér kær síðan ég var unglingur. Hún stendur keik með eina rótina í gömlu dögunum, Schubert og félögum, önnur teygir sig inn í framtíðina gegnum nýjar tónsmíðar, og hvort tveggja tekur á sig mynd í nútíðinni: lifandi tónlistarflutningi. Við flytjendur, tónskáld og áheyrendur rannsökum þessa heima og geima saman. Það er fjör!,“ segir Steinunn Arnbjörg.
Á efnisskrá eru verk eftir Steinunni sjálfa, íslensk-kanadíska tónskáldið Véronique Vöku og Franz Schubert.
Miðasala á mak.is