Stórbrotinn dans og töfrar Tchaikovskys
Það er stór helgi framundan því hátíðarballettinn frá Pétursborg er væntanlegur í Hof á hverri stundu. Á sunnudaginn mun rússneski ballettinn flytja einhvern vinsælasta ballett allra tíma. Svanavatnið sameinar tilkomumikla ástarsögu, stórbrotinn dans og töfra Tchaikovskys sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flytur.
Það er uppselt á viðburðinn en áhugasömum er bent á að hafa samband við miðasöluna ef ske kynni að eitthvað verði um ósóttar pantanir.
Það er menningarbrú Hofs og Hörpu sem gerir komu rússneska ballettsins mögulega. Svanavatnið verður einnig flutt í Hörpu og þá í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Aðal dansarar ballettsins eru Elizaveta Bogutskaya, Aleksandr Abaturov, Nikita Moskalets og Irina Khandazhevskaya. Hljómsveitarstjóri er Vadim Nikitin og listrænn stjórnandi Sergey Smirnov.