Stúfur, Norðurljósin og danssýning
Helgin var heldur betur viðburðarrík hjá Menningarfélagi Akureyrar. Ekki nóg með að Stúfur hafi haldið tvær fjörugar sýningar í Samkomuhúsinu, og sé þar með rokinn af stað í önnur verkefni aðventunnar, heldur var einnig mikið líf og fjör í Menningarhúsinu Hofi.
Á föstudaginn mættu fyrstu bekkingar úr grunnskólum Akureyrar í Hof til að syngja jólalög með stjörnunum í Norðurljósunum. Jólatónarnir heyrðust langt inn í Eyjafjörð og líklega alla leið til Grímseyjar svo mikið var fjörið. Norðurljósastjörnurnar létu ekki þar við sitja heldur héldu tvenna tónleika á föstudagskvöldinu og enn aðra á laugardagskvöldinu sem leiddi til þess að stór hluti Norðlendinga komst í alvöru jólaskap enda tónleikarnir sérstaklega vandaðir og vel heppnaðir. Þetta var fimmta árið í röð sem Norðurljósahópurinn, sem samanstendur af stórstjörnum á borð við Sölku Sól, Jón Jónsson, Magna, Daða, Sigríði Thorlacius og Álftagerðisbróðirnum Óskari Péturssyni, heldur sína árlegu jólatónleika í Hofi.
Dansinn var allsráðandi á sunnudaginn þegar 400 norðlenskir listamenn á öllum aldri stigu á svið Hofs á jóladanssýningu Dansskóla STEPS. Danshóparnir settu jólaævintýrið Þegar Trölli stal jólunum í dansbúning en sýningin hófst á á dansverkinu Frostkristallar.