Fara í efni

Svanur og Hundur í óskilum

Lúðrasveitin Svanur var stofnuð árið 1930. Lúðrasveitir eru fastur liður í hátíðarhaldi Íslendinga og flestir tengja starf þeirra fyrst og fremst við leik í skrúðgöngum og við önnur opinber tækifæri. Starf lúðrasveita er mun umfangsmeira og heldur Lúðrasveitin Svanur þrenna til ferna tónleika á ári auk þess að fara reglulega í tónleikaferðir til útlanda. Þar hefur sveitin ætíð flutt íslensk verk við mikinn fögnuð heimamanna hverju sinni. Um 50 manns á aldrinum 16-60 ára spila nú með sveitinni.

Stjórnandi Lúðrasveitarinnar Svans er Brjánn Ingason. Brjánn er fagottleikari við Sinfóníuhljómsveit Íslands  og hefur verið stjórnandi Svansins frá haustinu 2010.

Hljómsveitin Hundur í óskilum er skipuð þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Eiríki G. Stephensen.

Hljómsveitin, sem er ættuð úr Svarfaðardal, leikur á fjölda óvenjulegra hljóðfæra og spilar einkum lög annarra tónistarmanna í spaugilegum útsetningum. Hafa þeir félagar, sem báðir eru kennaramenntaðir, haldið fjölda tónleika og verið iðnir við að kynna grunnskólabörnum fyrir hinum fjölbreyttu hliðum tónlistar. Hljómsveitin gaf út árið 2002  plötuna Hundur í óskilum og plötuna Hundur í óskilum snýr aftur árið 2007.

Þeir félagar í Hundinum sömdu tónlist fyrir sýningu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni, sem sýnd var 2010-2011 undir stjórn Benedikts Erlingssonar og fluttu hana sjálfir á fjölunum. Fyrir tónlistina hlotnuðust þeim  Grímuverðlaunin 2010.

Lúðrasveitin Svanur mun leika með Hundinum útsetningar ýmissa dægurlaga, til dæmis Súludanstrans og Álfheiður Björk, auk þess að flytja Forleikinn Leðurblökuna eftir Johann Strauss í tilefni nýársins og önnur skemmtileg verk.

Til baka