Sveppi leikur í And Björk, of course
Enginn annar en Sverrir Þór Sverrisson, betur þekktur sem Sveppi, leikur í verkinu And Björk, of course sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir í febrúar. Aðrir leikarar eru Jón Gnarr, Eygló Hilmarsdóttir, Arna Magnea Danks, Davíð Þór Katrínarson, María Pálsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir.
„Það er ekkert nema tilhlökkun að koma til Akureyrar og vinna með góðu fólki, enda hefur það verið þannig í þau skipti sem ég kem þangað, hvort sem ég er að skemmta öðrum eða mér, þá er alltaf hrikalega gaman. Svo skilst mér að það sé alltaf gott veður fyrir norðan," segir Sverrir Þór.
And Björk, of course eftir Þorvald er nærgöngul og hrollvekjandi hásádeila þar sem sjálfsmynd þjóðar er lýst án miskunnar. Verkið er í senn sprenghlægilegt, óviðeigandi og óþægilegt. Nokkrar persónur koma saman á sjálfshjálparnámskeiði undir stjórn leiðbeinanda og eru þau öll í leit að sjálfum sér og staðfestingu á eigin virði. Verkið fjallar um sjálfsmynd okkar og hinn eilífa vanmátt manneskjunnar í að mæta sjálfri sér eða taka ábyrgð á lífi sínu.
Leikstjóri er Gréta Kristín Ómarsdóttir. Miðasala er í fullum gangi á mak.is. Forsölutilboð gildir til 15. október!