Fara í efni

Sýningaropnun bæjarlistamanns Akureyrar

Haraldur Ingi Haraldsson opnar sýningu sína “Aðgerð / Gutted laugardaginn 13. maí  kl. 14 í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.  Haraldur Ingi var bæjarlistamaður Akureyrar 2016-2017 og sýnir nú þau verk sem hann hefur unnið að á því tímabili. Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélags Akureyrar flytur ávarp,  Unnar Jónsson formaður stjórnar Akureyrarstofu opnar sýninguna og Haraldur Örn Haraldsson flytur verk sitt Tónskreyting við kvæðið Hrafninn eftir Edgar Allan Poe.  

 

Á sýningunni eru ný verk gerð 2016 -17.  Annars vegar málverk og hinsvegar smáskúlptúrar sem Haraldur Ingi tengir við innsetningu sem hann hélt í Listasafninu á Akureyri 2002.  Verkin eru pólitísk og frásagnarleg og fjalla öðru fremur um hættulegustu farsóttina sem plagað hefur mannkynið:  græðgi og valdafíkn. Haraldur notar akríl-liti og málar á grafíska filmu með pappírsbaki. Sýningin er hluti af þeim myndheimi sem Haraldur hefur verið að þróa frá því um 2000 og kallar Codhead. Þessi sýning er nr. XIV

 

Þetta er önnur sýningin sem Haraldur Ingi Haraldsson opnar á árinu.  Hin sýningin “Rat Race” á sér stað í sýndarveruleikagalleríi á internetinu.  Sú sýning er opin til áramóta og hægt er að komast inná hana með því að nota meðfylgjandi slóð : https://publish.exhibbit.com/gallery/87479750/marble-gallery-10275/

 

Haraldur Ingi er menntaður í myndlist og sagnfræði frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Háskóla Íslands og AKI Akademie Voor Beeldende Kunst, Enchede Hollandi og Die Vrie Akademie Pshykocpolis, Den Haag, Hollandi.  Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum.  Haraldur Ingi býr og starfar á Akureyri. 

 

Meira um list Haraldar Inga á síðunni  http://www.codhead.net/

 

Menningarfélag Akureyrar býður bæjarlistamanni ár hvert að nýta sér Menningarhúsið Hof eða Samkomuhúsið sem vettvang fyrir sýningu eða annars konar uppákomu í lok starfsársins.  

Til baka