Tæknimaður Hofs á Hróarskeldu
Árni F. Sigurðsson, tæknimaður hjá Menningarfélagi Akureyrar, mun starfa sem hljóðmaður á tónlistarhátíðinni Hróarskeldu sem fram fer í Danmörku á næstu dögum.
Árni, sem hefur starfað á stærstu íslensku tónlistarhátíðunum á borð við Sónar, Iceland Airwaves og Eistnaflug, er eini Íslendingurinn í hljóðteyminu sem starfar beint fyrir Hróarskeldu hátíðina. Auk vinnunnar í Hofi starfar Árni sem bóndi í Þingeyjarsýslu þar sem hann býr ásamt fjölskyldu sinni. Hann segir sveitastörfin passa vel með tækninni í Hofi. „Það er mjög gott að komast heim í sveitina eftir vinnu þótt þar sé líka alltaf nóg að gera en við erum með sauðfjárbúskap og hesta og erum að koma í gang hestaleigu.”
Árni er spenntur fyrir Hróarskeldu en þetta er í fyrsta skiptið sem hann fer á tónlistarhátíðina. „Það eru engar hljóðprufur á Hróarskeldu svo maður verður bara að renna blint í sjóinn en ég er ekkert stressaður. Ég er nokkuð öruggur með það sem ég þarf að gera og svo er ég líka spenntur að sjá hvort þau vinnubrögð sem við höfum tileinkað okkur hér á landi séu á pari við það sem er stundað þarna úti; hvort við séum á réttri leið eða hvort við mættum gera betur. Maður lærir vonandi eitthvað af þessu.”