Tengdó heimsækir Hof
Sýningin er eftir Val Frey Einarsson og var sett upp af CommonNonsense í samstarfi við Borgarleikhúsið nú á vormánuðum. Valur Freyr var einnig valinn leikskáld og leikari ársins í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í Tengdó.
Tengdó er hjartnæmt verk byggt á sannri sögu þar sem skyggnst verður í fjölskyldusögu listamannanna. Í forgrunni er áratugalöng leit „ástandsbarns“ að föður sínum og djúpstæð þörf hennar á að þekkja uppruna sinn.
„Aðeins hvítir menn, helst af norrænum stofni, mega vera í herliðinu sem kemur til landsins til að íslenska kynstofninum stafi sem minnst hætta af hernum.“ Frá ríkisstjórn Íslands, 1941. „En það var einn sem slapp í gegnum síuna. Hann sáði fræi í frjóan svörð. Hans var enn leitað 50 árum síðar. Hann er pabbi minn. Ég er eina litaða barnið í Höfnum.
Leikhópurinn CommonNonsense hefur vakið athygli fyrir nýstárlegar sýningar sem ramba á barmi myndlistar og leikhúss. Þau hafa áður m.a. sett upp Hrærivélina, CommonNonsense og Forðist okkur. Hópnum hefur bæst liðsstyrkur með leikstjóranum Jóni Páli Eyjólfssyni.
- Höfundur Valur Freyr EInarsson, Ilmur Stefánsdóttir, Jón Páll Eyjólfsson, Davíð Þór Jónsson
- Leikstjórn Jón Páll Eyjólfsson
- Leikmynd Ilmur Stefánsdóttir
- Búningar Ilmur Stefánsdóttir
- Tónlist Davíð Þór Jónsson
Menningarhúsið Hof óskar aðstandendum sýningarinnar innilega til hamingju og hlakkar til að fá ykkur norður yfir heiðar næsta vetur! Miðasala á viðburði vetrarins hefst um miðjan ágúst.