Textílfélag Íslands sýnir á Akureyri
Sýningin er í Mjólkurbúðinni, í Ketilhúsinu og Menningarhúsinu Hofi sem sýnir best umfang sýningarinnar sem er opnunarsýning Listasumars á Akureyri. Fjölbreytnin er mikil sem gefur til kynna þá miklu breidd sem þráðlistir spanna á Íslandi í dag. Á sýningunni er prjónahönnun, fatahönnun, veflistaverk, tauþrykk, þæfing, útsaumur, pappírsverk, ljósmyndaverk, ljósahönnun og margskonar óhefðbundin þráðlistaverk unnin í blandaða tækni.
Textílfélag Íslands var stofnað 1974 af nemendum og kennurum textíldeildar Myndlista- og handíðaskólans ásamt starfandi textíllistamönnum. Eitt af aðalmarkmiðum félagsins hefur ávallt verið að gæta hagsmuna félagsmanna sinna og kynna list þeirra á innlendum og erlendum vettvangi.
Í dag eru félagskonur 80 og þátttakendur í sumarsýningu Textílfélagsins á Akureyri eru 39 talsins eða um helmingur félagskvenna. Það er því gleðiefni að svo fjölmennur hópur textílkvenna taki þátt í sýningunni en þetta er í fyrsta sinn sem Textílfélag Íslands sýnir norðan heiða. Segja má að það hafi verið tímabært í ljósi þess að vagga textíliðnaðar á Íslandi var á Akureyri lungan úr 20. öldinni.
Sýningin í Hofi stendur yfir frá 2. til 17. júlí og er opin alla daga.