Þátttökuverkið Eyja fjallar um hvað það þýðir að tilheyra
Þátttökuverkið Eyja fer fram 29. og 30. ágúst. Sýningar hefjast klukkan 14 og 16.30 með siglingu í ferjunni frá Árskógssandi yfir til Hríseyjar. Verkið tekur tvær klukkustundir og 15 mínútur með siglingu báðar leiðir og fer fram í ferjunni og innan og utan húss í Hrísey. Gestir þurfa að mæta tímanlega í ferjuna og koma klæddir eftir veðri. Öllum reglum um sóttvarnir verður fylgt.
Eyja er þátttökuverk um hvað það þýðir að tilheyra. Verkið er staðsett í Hrísey, brothættri byggð þar sem líf og lífsskilyrði eru viðkvæm. Lífið á eyjunni endurspeglar þau hnattrænu verkefni sem blasa við í heiminum árið 2020. Gestum er boðið á eyjuna til að rýna í eigin hugmyndir um sjálf og samfélag og um tíma og stað.
Siglt er frá Árskógssandi og hefst verkið þegar stigið er um borð. Í verkinu er gestum boðið að hugleiða áleitin stef um mannlegt samfélag í gegnum táknrænar gjörðir, hugvekjur og með göngu í gegnum innsetningar. Í verkinu speglar gesturinn sjálfan sig í sviðsettu ferðalagi um líf og lífsgildi gestgjafanna.
Verkefnið er eftir Steinunni Knúts-Önnudóttur í samstarfi við Grétu Kristínu Ómarsdóttur og íbúa Hríseyjar og er unnið í samstarfi við Leikfélag Akureyrar. Eyja verður einnig sýnt á A! Festival í október 2020.