Fara í efni

Þéttskipuð menningardagskrá um helgina

það er engum blöðum um það að fletta að helgin hjá Menningarfélagi Akureyrar verði viðburðarík, enda boðið upp á sprenghlægilegan gamanleik í Samkomuhúsinu, tónleikasýningu til heiðurs 40 ára afmælis kvikmyndarinnar Grease og tónleika með einum ástsælasta söngvara landsins Pálma Gunnarssyni í Menningarhúsinu Hofi

Föstudaginn sýnir Leikfélag Akureyrar hið sprenghlægilega, hraða og stórskemmtilega gamanleikrit, Sjeikspír eins og hann leggur sig

Hið nýstofnaða Sjeikfélag Akureyrar hefur meira af kappi en listrænu innsæi, eða staðgóðri þekkingu á verkum og ævi William Shakespeare, ákveðið að flytja öll verk skáldsins, 37 talsins, á 97 mínútum. Það er næsta víst að allt gengur ekki eins og það á að ganga og niðurstaðan eru hlátursprengjur og nærandi kvöldstund með tónlist og gleði. Sýningin hefur fengið frábærar viðtökur gesta og gagnrýnenda.

„Svo mikið var hlegið að Sjeikspírsliðum þessa kvöldstund að sumum fannst nóg um en fólk réð einfaldlega ekki við sig.“ S.H. - Morgunblaðið 
 
Leiksýningin Sjeikspír eins og hann leggur sig hefst kl. 20:00 – Nokkur sæti laus

 

Hver man svo ekki eftir söng- og danskvikmyndinni Grease sem sló svo rækilega í gegn á 8. áratugnum?

Í tilefni 40 ára afmælis kvikmyndarinnar standa ARG viðburðir fyrir tónleikasýningum í Menningarhúsinu Hofi þar sem helstu smellir hennar, í flutningi Jónsa, Jóhönnu Guðrúnar, Jógvans Hansen og Stefaníu Svavars munu fá unga jafnt samt aldna gesti til að komast í nostalgíukast.

Fjölskyldusýning Grease hefst kl. 17:30 föstudaginn 23. mars - Örfá sæti laus!

Tónleikasýning Grease hefst kl. 19:30 föstudaginn 23. mars - Örfá sæti laus!

 

Laugardagskvöldið 24. mars stígur svo Pálmi Gunnarsson á svið ásamt hljómsveit í Menningarhúsin Hofi. Pálmi fer yfir ferilinn og flytur öll sín bestu lög. Ekki þarf að fjölyrða um tónlistarferil Pálma enda fáir íslenskir tónlistarmenn sem eiga jafnlangan og farsælan feril og hann. Ásamt því að starfa með Mannakornum, Brunaliðinu, Friðryk, Blúskompaníinu og Póker, svo einhverjar hljómsveitir séu nefndar, hefur Pálmi átt glæsilegan sólóferil og unnið hug og hjörtu þjóðarinnar með söngperlum sem hvert mannsbarn þekkir. 

Tónleikar Pálma Gunnarssonar hefjast kl. 19:30 - Örfá sæti laus

Til baka