Þorri Hringsson opnar sýningu í Hofi
Sjónlistasýningar eru settar upp í opnum rýmum Hofs allan ársins hring. Sýning Þorra Hringssonar opnaði laugardaginn 7. mars og stendur yfir fram í miðjan ágúst.
Þorri Hringsson er listmálari, vín-, matar- og veitingahúsarýnir, kennari og stangveiðimaður sem undanfarin 20 ár hefur lagt fyrir sig að mála myndir af náttúrunni. Fæddur í Reykjavík og menntaður á Íslandi og í Hollandi en deilir tíma sínum á milli vinnustofa í miðbæ Reykjavíkur og Aðaldals, á bökkum hinnar mögnuðu Laxár. Myndefni hans eru öll sótt í náttúruna í Aðaldal og nánast eingöngu frá landi fjölskyldunnar.
Verk hans hafa verið til sýnis á Íslandi, í Evrópu og í Bandaríkjunum og eru verk eftir hann í eigu allra stærstu safna landsins sem og í stórum einkasöfnum í Evrópu og Bandaríkjunum.