Fara í efni

Þrándur Þórarinsson opnar í Hofi

Myndlistarmaðurinn Þrándur Þórarinsson opnar myndlistarsýningu sína í Menningarhúsinu Hofi laugardaginn 16. febrúar. Þrándur fæddist á Akureyri árið 1978, stundaði nám um tíma í Listaháskóla Íslands og Myndlistaskólanum á Akureyri og var í læri hjá Odd Nerdrum. Þrándur sækir meðal annars innblástur í íslenskar þjóðsögur og fornan sagnaarf og hefur gjarnan verið kallaður þjóðlegasti myndlistamaður samtímans. Opnun Þrándar hefst klukkan 16 og eru allir velkomnir. Sýningin stendur til 7. apríl.

 

Um Þránd:

Þrándur Þórarinsson hefur ávallt verið einkar einkennilegur maður, og hefur það valdið ýmsum óskemmtilegum uppákomum og atburðum, sem seint munu gleymast í lífi þessa merka manns. En af hverju er hann svona? Ha? Af hverju er hann svona vondur við kýr? Af hverju er hann svona hræddur við Vestfirði? Og af hverju í óskupunum er hann alltaf með gæsahúð?

Ráðgátan um Þránd verður að öllum líkindum aldrei leyst, en þá skulum við bara einbeita okkur að því sem við vitum um hann.

Fyrir fimm árum hóf Þrándur feril sinn sem farandtrúbador í Asíu. Og þrátt fyrir að hann hafi vakið mikla athygli í fréttum hérlendis, er ekki hægt að segja að hann hafi slegið í gegn þarlendis. Hann ber enn örin eftir eggja- og tómataköstin frá áhorfendum á styrktartónleikum heyrnarlausra í Víetnam árið 1995. Þessi tónleikar mörkuðu tímamót í lífi Þrándar, því það var þá sem hann sór þann eið að koma ekki nálægt strengjahljóðfærum framar á ævi sinni. Hann ákvað að nýta menntun sína sem veðurfræðingur og fór með fimm öðrum norskum raunvísindamönnum til Suðurpólsins. Sex lifðu dvölina af, en Norðmennirnir fimm litu út eins og að einhverskonar rándýr hefði ráðist á þá og étið af þeim andlitin. Þrándur hefur aldrei viljað tjá sig um málið.

Suðurpólsdvölin hafði að sjálfsögðu mjög slæm áhrif á Þránd. Hann dvaldist í rúmlega eitt ár á geðveikrahæli í Virginíu í Bandaríkjunum. Í skýrslum þaðan stendur að fyrstu sjö mánuðina hafi hann gefið frá sér „undarlegar stunur og bent upp í loftið með báðum vísifingrum sínum.“ Eftir að vera loksins útskrifaður af hælinu fluttist hann til Los Angeles of gerðist pistlahöfundur hjá tímaritinu U.F.O. Truthseeker. Þá kynntist hann kvikmyndaleikaranum Charlie Sheen, sem hafði komið til hans og beðið hann um ráð í samband við kvikmyndina „The Arrival,“ sem hann var að vinna að á þeim tíma. Charlie og Þrándur urðu miklir vinir, og þá sérstaklega eftir að Þrándur hjálpaði honum við að losna við kókaínfíknina.

Í gegnum Charlie kynntist Þrándur nokkrum gullfallegum stúlkum úr klámmyndaiðnaðinum og það varð til þess að hann ákvað að reyna fyrir sér sem amateurkvikmyndaleikstjóri. Og viti menn! Á aðeins einu ári var hann orðinn einn þekktasti klámmyndaleikstjóri á vesturströndinni, þar sem hann gerði hvorki meira nér minna enn þrjátíu og fjórar myndir. En þrátt fyrir frægð og frama var hann langt frá því að vera ánægður. Hann saknaði Íslands og eina leiðin til að rífa sig upp úr þunglyndinu var að fara aftur heim og ljúka við skólann.

Þrándur Þórarinsson er mjög góður maður, sama hvað fólk segir. Hann er bæði harðskeyttur og mjúkur. Hann er einn af gáfaðustu og lífsreyndustu menntskælingum landsins og hann kann að baka dýrindis omelettur. Við munum ávallt þekkja hann sem þögla manninn á skólabókasafninu sem gat setið þar tímum saman niðursokkinn í fræðibækur, en aldrei sáum við hann taka eina einustu bók með sér heim. 

Textinn er eftir Hugleik Dagsson og birtist fyrst í Karmínu árið 1999

 

Til baka