Tímamótasamningur Menningarfélags Akureyrar og Akureyrarbæjar
Í morgun var undirritaður samningur Akureyrarbæjar og Menningarfélags Akureyrar (MAk) um stuðning sveitarfélagsins við starfsemi félagsins næstu þrjú árin. MAk heldur áfram rekstri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, framleiðslu á leiklist undir merkjum Leikfélags Akureyrar og rekstri fyrirmyndarvettvangs fyrir lista- og menningarviðburði í Menningarhúsinu Hofi og Samkomuhúsinu á Akureyri.
Samningurinn var undirritaður á sviði Samkomuhússins, þar sem gamanverkið Sjeikspír eins og hann leggur sig! verður frumsýnt í kvöld. Dagurinn er því heldur betur sérstaklega gleðilegur.
Samningurinn felur í sér nokkur tímamót þar sem framlög til starfseminnar hækka umtalsvert og er meginmarkmiðið að styrkja og efla starf atvinnuleikhússins. Framlög til samningsins verða á yfirstandandi ári 243,1 m.kr. og er það hækkun um 50 m.kr. frá síðasta ári. Hækkunin byggir annars vegar á samstarfssamningi ríkisins og Akureyrabæjar um menningarmál en úr honum koma tæpar 23 m.kr. og hins vegar á auknu framlagi úr bæjarsjóði upp á ríflega 27 m.kr.. Á árinu 2019 verður framlagið að lágmarki 261 m.kr. og 270,6 m.kr. á árinu 2020. Að auki greiðir Akureyrarbær MAk 4,2 m.kr. í sérstakan tónlistarsjóð sem félagið mun reka í nafni bæjarins, 2 m.kr. fyrir rekstur almenningssalerna og 1 m.kr. fyrir fundaraðstöðu fyrir bæjarstjórn í Hömrum. Gert er ráð fyrir að fundir bæjarstjórnar flytjist þangað frá og með næsta kjörtímabili.
Samningurinn felur einnig í sér þau tímamót að fest er í sessi til næstu þriggja ára það fyrirkomulag að MAk reki undir einum hatti þá starfsemi sem Leikfélag Akureyrar, Menningarfélagið Hof og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands höfðu áður með höndum. Allur sá rekstur verður alfarið á höndum MAk. Starfsemi félaganna þriggja breytist, þau verða bakhjarlar starfseminnar hvert á sínu sviði og virkja áhugafólk til þátttöku í viðburðum og stefnumótun. Stjórnir félaganna munu hafa ráðgefandi hlutverk og þær skipa hver sinn fulltrúa í stjórn MAk.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, sagði í tilefni undirritunarinnar:
„Það er afar ánægjulegt og mikilvægt að ljúka þessum samningi sem felur í sér spennandi tækifæri fyrir MAk og atvinnufólk í tónlist og sviðslistum á Akureyri og nágrenni. Ég er sérstaklega ánægður með þá áræðni sem fólgin er í sameiginlegu átaki ríkis og bæjar um eflingu leiklistarinnar sem ég vona að marki tímamót. Leiklistarstarfið, starfsemi SN og Hofs mynda saman mikilvæga innviði sem skipta máli ekki bara fyrir Akureyri heldur fyrir Norðurland allt og Austurland að hluta."
Sigurður Kristinsson, formaður stjórnar MAk, fagnar einnig samningnum:
„Samningurinn er mikið gleðiefni og markar tímamót. Sú hækkun framlaga sem hann ber með sér skapar nýjar og betri forsendur fyrir alla starfsemi MAk. Mér er efst í huga þakklæti fyrir framsýni bæjaryfirvalda og atbeina ríkis við að skapa sterka umgjörð á Akureyri fyrir menningarstarf í hæsta gæðaflokki, sem auðgar mannlífið og gerir Akureyri og Norðurland enn eftirsóknarverðari til búsetu og heimsókna."