Tveir heimar - sýningaropnun um helgina
Velgengni Óla G. var ævintýri líkust en hann hélt sína fyrstu sýningu árið 1973. Hann sýndi verk sín víða um
heim á vegum Opera Gallery, m.a. í New York, London, Mónakó, Singapúr og Dúbaí.
Óli G. Jóhannsson var meðal þeirra myndlistarmanna sem þræddu einstigið milli ímyndunaraflsins og ytra áreitis. Úr hugskotinu sótti hann minningar frá æskuárunum, þeim tíma þegar lífið er ævintýri, sérhver kofi höll og hvert andartak þrungið óendanlegum möguleikum. Verk hans voru ennfremur eins konar móttökutæki fyrir það markverðasta sem á daga hans dreif, ólgusjóa í einkalífi og náttúru, strjál augnablik, fögur af tilviljun, og síðan áhrifin af framandi menningarheimum sem hann og Lilja kona hans uppgötvuðu á ferðum sínum.
Þessum tveimur heimum steypir Óli G. saman í margbrotna myndvefi, sem sumir eru eins og risastór sendibréf á torræðu táknmáli, aðrir eins og lagskiptar og síbreytilegar myndasögur, barnslegar, hlýlegar og harðneskjulegar á víxl. Sérstakt einkenni á síðari verkum listamannsins er rúðunetið, sem verður honum tæki til að koma óstýrilátu hugarfluginu í skipulegt ferli, en vekur einnig upp hugmyndina um jarðlífið sem eins konar taflborð, þar sem eigast við listamaðurinn og sköpunarverk hans. Þeirri skák tapaði Óli G. Jóhannsson aldrei.
Aðalsteinn Ingólfsson