Upptakturinn styrktur af Uppbyggingarsjóði SSNE
Upptakturinn - tónsköpunarverðlaun barna og ungmenna hlaut í gær styrk uppá rúmar 2,5 milljónir úr Uppbyggingarsjóði Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra. Styrkurinn var sá hæsti sem veittur var menningarverkefni í ár.
„Við fögnum innilega þessum góða styrk sem gerir okkur kleift að halda þessu flotta verkefni áfram,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarhússins Hofs og verkefnastjóri Upptaktsins.
Með Upptaktinum er ungu fólki á aldrinum 10-16 ára gefið tækifæri til að senda inn tónsmíð, eða drög að henni, og vinna markvisst úr hugmyndum sínum með fulltingi listamanna. Ungmennin sem komast áfram vinna að útsetningum undir leiðsögn reynds tónlistarfólks. Til verða ný tónverk sem flutt verða á tónleikum Upptaktsins í Hofi þann 24. april auk þess sem þau verða varðveitt með upptöku.
Þetta er í þriðja sinn sem Upptakturinn er haldinn á Akureyri. Markmið verkefnisins eru að stuðla að tónsköpun ungs fólks, hvetja börn og ungmenni til að semja eigin tónlist og aðstoða þau við að fullvinna hugmyndir sínar í vinnusmiðju með fagfólki, auk þess að gefa þeim tækifæri til að upplifa eigin tónlist í flutningi atvinnutónlistarfólks við kjöraðstæður á tónleikum í Menningarhúsinu Hofi.
„Við bíðum spennt að taka á móti umsóknum ungmenna hvaðanæva af Norðurlandi eystra,“ segir Kristín Sóley, sem hvetur öll ungmenni sem hafa áhuga á sköpun og tónlist að taka þátt.
Upptakturinn er samstarfsverkefni Menningarhússins Hofs og Hörpu. Nánari upplýsingar um Upptaktinn á Akureyri er að finna á heimasíðu Menningarfélagsins