Útgáfutónleikar Skálmaldar í febrúar
Skálmöld gaf út sína aðra plötu, Börn Loka, 26. október síðastliðinn. Útgáfutónleikar verða haldnir 2.
febrúar í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri og 9. febrúar í Háskólabíói í Reykjavík.
Þegar Skálmöld gaf út fyrri plötu sína, Baldur, í lok árs 2010 vissu fáir hvað var á ferðinni. Á undraskömmum
tíma tók sveitin sig á loft og flaug upp vinsælda- og sölulista á hátt sem engin önnur sveit af sama sauðahúsi hafði gert fram að
því hér á landi. Samhliða vinsældum hér heima hefur vegur Skálmaldar einnig vaxið utan landsteinanna og tónleikaferðir verið
tíðar.
Eftirvæntingin var því mikil þegar Skálmöld upplýsti útgáfudag nýrrar plötu sem síðan kom út í lok október. Þó var ómögulegt að sjá viðtökurnar fyrir og komu þær öllum hlutaðeigandi, jafnvel þeim bjartsýnustu, í opna skjöldu. Fyrsta upplag seldist þannig upp með ógnarhraða og Skálmöld hefur á þessum örfáu dögum sem liðnir eru frá útgáfunni brotið niður alræmda múra sem gjarnan skilja að meginstraumstónlist og jaðartónlist. Skyndilega heyrist þungarokk hljóma á ólíklegustu stöðum og kynslóðir sameinast í áhuga af rammíslensku þungarokki.
Samhliða plötusölunni tóku miðar á fyrirhugaða útgáfutónleika í Hofi þann 2. febrúar að rjúka út og seldust upp samstundis. Vegna gríðarlegrar pressu þeirra sem sárir sátu eftir hefur verið brugðið á það ráð að flýta þeim tónleikum til klukkan 20 (voru fyrirhugaðir klukkan 21) og setja á aðra klukkan 23. Einnig brugðust aðstandendur skjótt við og nú hafa verið skipulagðir útgáfutónleikar syðra í Háskólabíói viku seinna, laugardaginn 9. febrúar.
Skálmaldarmenn lofa miklu sjónarspili beggja vegna heiða og óhætt að reikna með ógleymanlegri skemmtun. Miðasalan gengur mjög glatt og er áhugasömum bent á að tryggja sér miða í tíma á menningarhus.is , midi.is eða í síma 450 1000.