Samvinnuverkefni eldri borgara á Akureyri
Í tilefni 150 ára afmælis Akureyrarbæjar verður veggteppi sem unnið var af rúmlega 100 einstaklingum
sem sækja félagsmiðstöðvar eldri borgara á Akureyri til sýnis í Hofi 25. til 28. október.
Verkið er samvinnuverkefni unnið af einstaklingum sem sækja félagsmiðstöðvar eldri borgara á Akureyri undir leiðsögn og hönnun leiðbeinenda.
Verkið tók fjóra mánuði í vinnslu og hófst í byrjun janúar og lauk því í lok apríl 2012. Verkið samanstendur af 3120 bútum, ýmist prjónuðum eða hekluðum. Stærðin á hverjum bút er 3x3 cm. Bútarnir eru með mismunandi áferð og er fjöldi þeirra um það bil sá sami og eldri borgarar eru á Akureyri. Það má því segja að verkið endurspegli karakter eldri borgara Akureyrar í fjölda bútanna, áferð og blæbrigðum.
Verkið er unnið út frá teikningu Guðmundar Ármanns Sigurjónssonar myndlistarmanns frá árinu 1987 en upphaflega merkið var teiknað af Tryggva Magnússyni listmálara.
Merkið er blár skjöldur með hvítum fugli. Á bringu fuglsins er skjöldur markaður með kornknippi. Blái liturinn er litur himinsins og fjarlægra fjalla, kornknippið tákn nafnsins Akureyri, en fuglinn tengdur frásögn Heimskringlu um landvættir: Haraldur Gormsson konungur bauð fjölkunnugum manni að fara hamförum til Íslands. Sá fór í hvalslíki. Er hann fór inn eftir Eyjafirði „fór móti honum fugl svo mikill að vængirnir tóku út fjöllin tveggja vegna og fjöldi annarra fugla, bæði stórir og smáir.“