Vel heppnaðir skólatónleikar í Hofi
Um 1100 grunnskólabörn og starfsfólk 4.-6 bekk grunnskóla úr öllum Eyjafirði, allt frá Fjallabyggð til Grenivíkur og austur til Húsavíkur koma í Menningarhúsið Hof þessa dagana til að njóta tónlistarævintýrsins um Stúlkuna í turninum eftir Snorra Sigfús Birgisson við sögu Jónasar Hallgrímssonar. Haldnir verða níu tónleikar á þremur dögum en síðustu tónleikarnir eru á morgun, miðvikudag.
Verkefnið er samstarfsverkefni Tónlistarfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og List fyrir alla og styrkt af Sóknaráætlun Norðurlands eystra.
„Það hafa verið ákaflega glaðir nemendur og starfsfólk sem hafa komið í hús og við sem höfum tekið á móti þeim haft sérstaka ánægju af því að sjá þau í Hofi og upplifa ævintýrið um Stúlkuna í turninum með þeim,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri í Hofi.
Auk Stúlkunnar í turninum voru flutt lögin um James Bond og Á Sprengisandi í útsetningum Guðmundar Óla Gunnarssonar hljómsveitarstjóra. Um sviðsetningu sá Vala Fannell.
Farið var eftir sóttvarnarreglum í hvívetna.
Takk fyrir komuna krakkar!