Velheppnaðir tónleikar Upptaktsins
Velheppnaðir tónleikar Upptaktsins, tónsköpunarverðlauna barna og ungmenna, fóru fram í Menningarhúsinu Hofi á sunnudaginn. Þar voru tíu verk ungskáldanna flutt af atvinnuhljóðfæraleikurum. Kristín Sóley Björnsdóttir, viðburðastjóri Menningarhússins Hofs segir tónleikana hafa tekist afar vel.
„Ég held að mér sé óhætt að segja að ekki hafi verið þurrt auga í salnum eftir flutning verkanna tíu. Ég fann sterkt hversu stolt ungu skáldin voru af verkum sínum, svo ekki sé talað um áheyrendur enda ekki á hverjum degi sem atvinnuhljóðfæraleikarar flytja verk eftir svo ung tónskáld. Við erum ríkt samfélag með svo hæfileikarík og skapandi ungmenni í tónlist,“ segir Kristín Sóley.
Um útsetningu verkanna fyrir hljómsveit sá Kristján Edelstein og Greta Salóme en Greta er einnig tónlistarstjóri Upptaktsins.
Unghöfundarnir og verk þeirra :
Aðalheiður Jóna Kolbeins Liljudóttir – Tröll og grjót
Daníel Hrafn Ingvarsson- Who are you tryna fool
Gísli Freyr Sigurðsson- Wicked WonderLand
Heimir Sigurpáll Árnason - Kveðja til þín
Jóhann Valur Björnsson - Uncertain River
Lea Dalstein Ingimarsdóttir – Fuglinn
Mahaut Ingiríður Matharel – XLIX
Óðinn Atlason- Desember
Reginn Ólafur Egilsson- Geimveran
Þórný Sara Arnarsdóttir og Amanda Eir Steinþórsdóttir - Loginn
Upptakturinn er fyrir börn og ungmenni í 5. - 10. bekk og er samstarfsverkefni Menningarhússins Hofs og Upptaktsins í Hörpu. Verkefnið er styrkt af SSNE.