Fara í efni

Velheppnuð frumsýning - Listin að lifa

Það ríkti mikil gleði í Samkomuhúsinu á Akureyri síðastliðinn föstudag þegar leikritið ,,Listin að lifa“ var frumsýnt.  Verkið tekur á málefnum ungs fólk, kynferði, hópþrýstingi og sambandi unglinga við foreldra sína. Þetta er spennuþrungin ástarsaga með söngvum með alvarlegum undirtón þar sem segja má að kjarnasetningin sé „ Má fólk ekki bara vera eins og það er? Þarf eitthvað að tilkynna : ÉG ER HÓMÓ. Er ekki skemmtilegast við lífið að maður veit ekki allt?“

Það sem gerir þetta verk frábrugðið öðrum, sem boðið er uppá á fjölum Samkomuhússins í ár, er að leikararnir  12 eru á aldrinum 13-16 ára. Þeir eru höfundar verksins og semja tónlistina og það er hinn 21 árs gamli Sindri Snær Konráðsson sem leikstýrir verkinu. Að öðrum ólöstuðum sló aðalleikarinn Egill Andrason í gegn í sýningunni en hann semur einnig tónlistina. Hópnum í heild tókst einnig  vel upp á frumsýningunni og greinilegt að hér eru á ferðinni upprennandi stjörnur í íslensku listalífi ef heldur fram sem horfir.

Leikfélag Akureyrar er stolt af því að geta gefið þessum unga leikhópi tækifæri til að rækta hæfileika sína, eiga stefnumót við áhorfendur og styðja við frumsköpun þar sem raddir ungs fólks heyrast. Leikhúsið er jú gróðurhús fyrir hugmyndir og staður þar sem draumar geta ræst.

 Við viljum hvetja unga sem aldna að láta ekki þetta skemmtilega tækifæri til að styðja við bakið á ungu og efnilegu fólki, sem lætur drauma sína rætast, fram hjá sér fara.

 Seinni sýningin á Listin að lifa verður laugardaginn 8. október kl 20:00 í Samkomuhúsinu. Miðaverð er 2500 krónur. 

Til baka