Fara í efni

Verk Ástu Sig sett upp í Hofi.

Listakonan Ásta Sigurðardóttir fékkst við ýmislegt á sinni ævi og vakti fyrst athygli þegar að smásaga hennar Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns birtist í tímaritinu Líf og list árið 1951. Þá var Ásta einungis 21 árs gömul.

Ásta var þó ekki einungis hæfileikarík á ritvellinum því hún var mjög fjölhæf listakona og fékkst við leirkerasmíð, grafík, teikningar og málaralist svo eitthvað sé nefnt og hafa afkomendur hennar nú safnað saman völdum verkum hennar til sýningar í Hofi á Akureyri.

Ásta var fædd árið 1930 og var áberandi í listalífi höfuðborgarinnar og vöktu verk hennar jafnt aðdáun sem og hneysklan. Hún var gjörn á að ögra ríkjandi viðhorfum með framúrstefnulist sinni og varð táknmynd hinnar „frjálsu“ konu í gegnum verk sín og viðhorf.  Ævi hennar var litrík, ögrandi og krefjandi og lést hún langt fyrir aldur fram í desember 1971, aðeins 41 árs að aldri.

Leikverkið Ásta var sett upp á vegum Þjóðleikhússins í byrjun árs 2021 og gekk í um eitt og hálft ár. Í tengslum við leiksýningu Þjóðleikhússins fengu afkomendur Ástu til liðs við sig grafíklistamanninn Guðmund Ármann sem þrykkti 50 eintök af hverri mynd og í júní 2023 var haldin sýning á dúkristum ásamt nokkrum vatnslitaverkum sem varðveist hafa eftir Ástu. Sú sýning kemur nú til Akureyrar.

Opnun myndlistasýningarinnar er kl. 14, laugardaginn 25. Janúar og eru allir velkomnir.

Til baka