Viðburðarík helgi fram undan
Helgin verður viðburðarík hjá Menningarfélagi Akureyrar. Á föstudagskvöldið verður gestasýning Borgarleikhússins; Allt sem er frábært frumsýnd hér fyrir norðan. Sýningin var tilnefnd til þriggja Grímuverðlauna árið 2019; sýning ársins, Ólafur Egill Egilsson sem leikstjóri ársins og Valur Freyr Einarsson sem leikari ársins í aðalhlutverki. Sýningar eru föstudags- og laugardagskvöld í Menningarhúsinu Hofi og er miðasala í fullum gangi á mak.is.
Að sama skapi verður mikið líf og fjör alla helgina í Samkomuhúsinu. Á sunnudagsmorgun fer þar fram Barnamorgun þegar persónur úr nýja fjölskylduverkinu Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist mæta og spjalla við krakkana. Lesnar verða sögur, sungnri söngvar og sprellað. Öll börn 6-13 ára eru velkomin í Samkomuhúsið á meðan húsrúm leyfir. NORÐURORKA er styrktaraðili Barnamorgna Menningarfélags Akureyrar. Ekkert þátttökugjald er á Barnamorgnum.
Tvær sýningar af Galdragáttinni eru á sunnudeginum, klukkan 13 og 16. Sýningin hefur fengið frábærar viðtökur og fékk til að mynda fjórar stjörnur í gagnrýni sem birtist í Morgunblaðinu á dögunum. Þar sem sýningatími er takmarkaður er áhugasömum bent á að hafa hraðar hendur og tryggja sér miða áður en það verður of seint.