Viðburðarík helgi framundan hjá Menningarfélagi Akureyrar
Það verða ákveðnar andstæður í Samkomuhúsinu um komandi helgi, annarsvegar er leikverkið ,,Listin að lifa“ leikverk eftir unga höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref í leikhúsi og hins vegar leikritið ,,Enginn hittir einhvern“ eftir hinn beitta penna Peter Asmussen í leikstjórn Simon Boberg. Leikrit sem hlotið hefur mikið lof gagnrýnenda. Peter Asmussen skrifaði meðal annars handritið af kvikmyndinni Breaking the Waves með Lars von Trier.
„Listin að lifa“ er spennandi ástarsaga ungs drengs með söngvum. Verkið fjallar um Frey sem er að koma út úr skápnum. Vinkonur Freys eru ákveðnar í að finna draumaprinsinn hans en lífið flækist þegar móður Freys berst tilkynning um nauðsynlegt brotthvarf frá heimili þeirra vegna vangoldinna skulda.
„Við erum stolt af því tækifæri að fá að fóstra og rækta hæfileika ungs listafólks í frumsköpun í sviðslistum, þar sem ungir krakkar taka sig saman og búa til heilt leikverk“ segir Jón Páll Eyjólfsson leikhússtjóri LA. Hópurinn kallar sig ,,Næsta leikrit“ og samanstendur af 13-16 ára krökkum sem öll eiga það sameiginlegt að hafa verið í Leiklistarskóla LA. Þau hafa þegar sýnt verkið, ,,Sértu velkominn heim”, sem sýnt var um borð í Húna ll 2014. Hópurinn skrifar sjálfur handritið, semur söngtexta og tónlistina í verkinu.
„Enginn hittir einhvern“ er kraftmikið, innblásið og afgerandi leikrit eftir beittan danskan penna. Leikritið hrífur áhorfendann með sér inn í samband tveggja ástríðufullra einstaklinga. Verkið hlaut fjórar stjörnur hjá Silju Björk Huldudóttur hjá Morgunblaðinu.
Í Hofi mun hlátur, gleði og rokk ráða ríkjum um helgina. Mið- Ísland kemur með glænýja uppstandssýningu sem sýnd hefur verið fyrir fullu húsi á yfir 60 sýningum í Þjóðleikhúskjallaranum. Laugardaginn 1. október munu öll bestu lög The Rolling Stones hljóma í Hamraborg en þar kemur fram einvala lið íslenskra tónlistarmanna.