Viðburðarrík helgi í Hofi
Að baki eru velheppnaðir og viðburðarríkir dagar í Hofi en tæplega þrjú þúsund gestir heimsóttu menningarhúsið um helgina hvort sem það var á opnun myndlistarsýningu, á jólatónleika og/eða á glæsilegt jólahlaðborð 1862 Nordic Bistro. Stjörnurnar í Heima um jólin héldu hvorki meira né minna en fimm tónleika fyrir fullu húsi en í ár stigu meðal annarra á svið Friðrik Ómar, Jógvan Hansen, Garðar Thor Cortes, Sigga Beinteins, Diddú og Jóhanna Guðrún. Fyrstu tónleikarnir voru á föstudagskvöldið, þrennir fóru fram á laugardeginum og þeir síðustu á sunnudeginum og fóru gestir heim með gæsahúð og jólabrosið fast á vörum.
Myndlistarkonan Habbý Ósk opnaði sýningu sína á laugardaginn en sýning hennar mun standa til febrúar. Habbý Ósk er Akureyringur í húð og hár en hefur dvalið í New York síðustu árin þar sem hún starfar við listina við góðan orðstír. Hún vinnur með ýmsa miðla og blandar þeim gjarnan saman auk þess sem hún vinnur út frá þemu, líkt og varanleika, jafnvægi, tíma, þyngdarafl, hreyfingu og andhverfur þeirra.