Viðburðir vikunnar
10. NÓVEMBER KL. 20
Íslenska óperan heimsækir Hof fimmtudagskvöldið 10. nóvember kl. 20. Fjórir heimilisleysingjar gramsa í ruslatunnum í óhrjálegu porti. Hverjum hefði dottið í hug að þar leyndust skínandi perlur óperubókmenntanna?
Tónlist úr óperum á borð við Carmen, Gianni Schicchi, La traviata, Rakarann í Sevilla – og að sjálfsögðu Perlukafarana, öðlast nýtt líf í þessari stórskemmtilegu sýningu úr smiðju Ágústu Skúladóttur og félaga. Fylgist með nokkrum af færustu söngvurum Íslands flytja ódauðleg meistaraverk í sprellifandi og sprenghlægilegum búningi!
Söngvarar í sýningunni eru Ágúst Ólafsson, Gissur Páll Gissurarson, Hulda Björk Garðarsdóttir og Valgerður Guðnadóttir, en píanóleikari er Antonía Hevesi.
Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir, leikmynd gerir Guðrún Öyahals, um búninga sér Katrín Þorvaldsdóttir en lýsingu annast Magnús Arnar Sigurðarson.
ÁRSTÍÐIR ÚTGÁFUTÓNLEIKAR
11. NÓVEMBER KL. 21
Hljómsveitin Árstíðir fagnar útgáfu annarrar hljóðversplötu sinnar Svefns og vöku skil með tónleikum í Hofi, 11. nóvember kl. 21.
Árstíðir var stofnuð 2008 og hefur tekið miklum framförum síðan. Hljómsveitin gaf út sína fyrstu plötu, samnefnda sveitinni, árið 2009 sem fylgt var eftir hérlendis sem erlendis. Frá því að hún kom út hafa liðsmenn unnið í nýju efni sem kemur nú út á plötunni Svefns og vöku skil. Nýja platan var tekin upp í samstarfi við Ólaf Arnalds og Styrmi Hauksson og er hljóðmyndin öllu stærri þar sem engu var til sparað.
Á þessu ári hafa Árstíðir farið þrjár ferðir erlendis og leikið í fimm löndum við góðar undirtektir. Nú síðast í Rússlandi þar sem hljómsveitin lék í átta borgum en áhugi á sveitinn í Rússlandi hefur aukist jafnt og þétt síðan hún fór í tónleikaferðalag þangað í október í fyrra.
Á þessum tónleikum njóta Árstíðir liðsinnis tveggja strengjaleikara og verða tónleikarnir öllu glæsilegri fyrir vikið.
KARLAKÓRINN HREIMUR - RÚSSARNIR KOMA
12. NÓVEMBER KL. 15
Tónleikar Karlakórsins Hreims í Hofi laugardaginn 12. nóvember kl. 15. Meginþemað er rússnesk karlakóratónlist.
Stjórnandi tónleikanna er Aladár Rácz.
BARNAMENNINGARHÁTÍÐ - BÖRN FYRIR BÖRN
13. NÓVEMBER
Menningarhúsið Hof efnir til barnamenningarhátíðar sunnudaginn 13. nóvember næstkomandi.
Tilgangur hátíðarinnar er að efla samstarf milli aðila sem koma að menningu barna á Norðurlandi, njóta menningar með börnum og láta um leið gott af sér leiða. Að þessu sinni rennur allur ágóði hátíðarinnar til Barnadeildar FSA.
Heimir Ingimarsson og Hjalti Jónsson ætla að hita upp fyrir hátíðina í Hömrum, minni sal Hofs, kl. 12-13 og stjórna söng og leikjum fyrir börn á leikskólaaldri. Skotta úr Stundinni okkar kíkir einnig í heimsókn. Allir velkomnir, enginn aðgangseyrir.
Rodrigo Lopes kennari við Tónlistarskólann á Akureyri stýrir trommurhring fyrir gesti og gangandi í Hamragili kl. 13:00-13.45.
Hátíðin sjálf fer svo fram í Hamraborg aðalsal Hofs og hefst hún kl. 14.
Fram koma börn sem leggja stund á ólíkar listgreinar ásamt listamönnum á borð við Jóhönnu Guðrúnu Jónsdóttur og Davíð Sigurgeirsson.
Kynnar hátíðarinnar eru umsjónarmaður Stundarinnar okkar, Margrét Sverrissdóttir og leikarinn Oddur Bjarni Þorkelsson.
Að hátíðinni koma fjölmargir aðilar sem vinna að menningarstarfi barna á Eyjafjarðarsvæðinu: Tónlistarskólinn á Akureyri, Tónlistarskóli Dalvíkur, Point dansstúdíó, Tónræktin, Barnakórar Akureyrarkirkju, Kór Hrafnagilsskóla, HBI Vocalist Söngskóli, Tónlistarvinnuskóli Hofs ásamt fjölmörgum grunnskólanemendum. Verkefnið hlaut styrk úr Barnamenningarsjóði.
ÚTGÁFUTÓNLEIKAR SVEINS DÚU
13. NÓVEMBER KL. 20
Útgáfutónleikar í tilefni af útkomu fyrstu einsöngsplötu Sveins Dúu Hjörleifssonar, verða í Hofi sunnudagskvöldið 13.
nóvember kl. 20.
Sveinn Dúa syngur þjóðþekkt lög úr bókinni „Íslenskt söngvasafn“ eða Fjárlögum, auk laga eftir Sigvalda
Kaldalóns, Pál Ísólfsson og Björgvin Guðmundsson.
Lögin eru útsett af Hirti Ingva Jóhannssyni, sem einnig leikur á píanó.
MIÐASALA OG NÁNARI UPPLÝSINGAR UM VIÐBURÐI Í HÚSINU MÁ FINNA Á VEF HOFS, WWW. MENNINGARHUS.IS OG Í S. 450 1000.