Viltu koma fram í Hofi? Opið fyrir umsóknir í VERÐANDI
Viltu koma fram í Menningarhúsinu Hofi? Viltu frumflytja nýtt tónverk eða sígilda gæðatóna, dansa eða jafnvel leika?
Ekki láta tækifærið til þess að sækja um í listsjóðinn VERÐANDI fram hjá þér fara!
Helstu markmið VERÐANDI eru að auðvelda ungu listafólki og þeim sem standa utan stofnanna að nýta sér þá fyrirmyndar aðstöðu sem Menningarhúsið Hof hefur uppá að bjóða, stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum í húsinu og nýta möguleika þess sem best. Sjóðurinn veitir styrki til kostnaðar vegna afnota af salarkynnum, tæknibúnaði, tækniþjónustu og framhúsi ásamt kynningu framan á húsinu.
Styrkþegar VERÐANDI eru orðnir 34 á síðastliðnum fjórum árum og má nefna Idol stjörnurnar Birki Blæ og Einar Óla, Marínu Ósk, Alexander Edelstein, Fanneyju Snjólaugar-Kristjánsdóttur, Þóru Kristínu Gunnarsdóttur, Jón Þorsteinn Reynisson, Jónínu Björt Gunnarsdóttur, hljómsveitina Miomantis, Gospelraddir Akureyrar, Kammerhópinn Bjargir, leikhópurinn Spritz og Viktoríu Sigurðardóttur.
Viðburðirnir hafa verið af ýmsum toga s.s. tónleikar, dansverk og leikverk og hafa sum þeirra verið frumsamin, en önnur þekkt. Það er því óhætt að segja styrkþegar VERÐANDI hafi með viðburðum sínum aukið enn á fjölbreytt listalíf, ekki bara hússins heldur líka bæjarins.
VERÐANDI er samstarfsverkefni Akureyrarbæjar, Menningarfélagsins Hofs og Menningarfélags Akureyrar sem kallar eftir umsóknum fimmta árið í röð, nú fyrir starfsárið 2023-2024.
Umsóknarfrestur er til og með 10. apríl. Sótt er um rafrænt á heimasíðu Menningarfélags Akureyrar; mak.is