Vísindasetur á Akureyrarvöku
Menningarfélag Akureyrar tekur virkan þátt í Akureyrarvöku um helgina með Vísindasetri í Hofi.
Enginn annar en Stjörnu-Sævar verður með skemmtilegar og einfaldar vísindatilraunir á laugardaginn, kl. 13.30 og 15.30, og Óði efnafræðingurinn Sean Scully mætir klukkan 14.30 með sprengjugaldra og froðutöfra handa forvitnum krökkum. Þá er ónefnd Sápukúlusýning Íslands þar sem áhugasamir fá tækifæri til að bubbla með fagmönnum.
Heimildamyndin Af jörðu ertu komin / Cosmic Birth eftir Rafnar Orra Gunnarsson og Örlyg Hnefil Örlygsson verður sýnd á Vísindasetrinu auk allskyns viðburða tengdum tækni og vísindum á borð við spennandi þrívíddarlíkön, tunglsteina, slímuga rannsóknarstofu, töfra orku, þrívíddarprentara og fleira og fleira.
Þátttakendur í ár eru: EFLA verkfræðistofa, Raftákn, Menningarfélag Akureyrar, Norðurorka, Háskólinn á Akureyri, Fab Lab Akureyri, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Sápukúlusýning Íslands og Könnunarsögusafnið.
Aðalstyrktaraðilar: Norðurorka, EFLA verkfræðistofa, Menningarfélag Akureyrar, Fab Lab Akureyri, Háskólinn á Akureyri, Raftákn.
Sýningin fml – fokk mæ læf er einnig sýnd í Samkomuhúsinu á Akureyrarvöku. Frítt er fyrir 16 ára og yngri en áhugasömum er bent á að tryggja sér miða í miðasölunni.