Alexander Smári Kristjánsson Edelstein er fæddur 1998. Hann stundaði píanónám við Tónlistarskólann á Akureyri hjá Þórarni Stefánssyni og útskrifaðist þaðan vorið 2017.
Alexander tók þátt í píanókeppni EPTA (Evrópusamband píanókennara) árið 2012 og hlaut 1. verðlaun í sínum flokki. Sama ár hlaut hann sérstök verðlaun sem einleikari þegar hann tók þátt í Nótunni, uppskeruhátíð tónlistaskólanna, sem fór fram í Eldborgarsal Hörpu. Árið 2015 tók hann aftur þátt í EPTA keppninni og hlaut þar verðlaun fyrir besta flutning á verkinu “Segulljós” samið af Önnu Þorvaldsdóttir.
Alexander hefur komið fram sem einleikari með hljómsveit og hefur haldið þó nokkra einleikstónleika, m.a. í Kirkjulistaviku Akureyrarkirkju og á 75 ára afmælisviku Tónlistafélags Akureyrar.
Alexander stundar núna nám við Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peter Máté og útskrifast úr Menntaskólanum á Akureyri í vor.
Tónlistarsjóður Hofs og Samkomuhússins styrkir þessa tónleika.