Listakonan Ásta Sigurðardóttir varð „fræg á einni nóttu“ eins og oft er sagt, þegar smásaga hennar „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ kom út í tímaritinu Líf og list árið 1951. Ásta var þá 21 árs gömul. Um viðtökurnar við sögunni, skáldkonuna og persónuna Ástu hefur mikið verið ritað og rætt í gegnum tíðina og óþarfi að tíunda það frekar. Minna hefur farið fyrir myndlistarkonunni Ástu, en Ásta var afar hæfileikarík og fjölhæf listakona. Hún vann um tíma í leirkeraverksmiðjunni Funa þar sem hún fékkst við listskreytingar á leirkerum.
Hún fékkst við málaralist, teikningu og grafík, auk þess sem hún myndskreytti og hannaði spil með mögnuðum teikningum af þekktum íslenskum þjóðsagnapersónum. Ásta lést ung og lánaðist þó ekki að klára spilin, en þau voru gefin út fullkláruð fyrir tilstuðlan afkomenda hennar af Forlaginu 2022. Það eru svipsterkir íslenskir galrdamenn, galdrakonur og draugar sem prýða mannspil Ástu, á ásunum eru kynjaskepnur og kyngimögnuð lyfjagrös og íslensku galdrastafirnir Ægishjálmur, Þórshamar, Kaupaloki og Ginfaxi eru notaðir til að einkenna hverja sort.
Og nú hafa afkomendur hennar einnig staðið fyrir því að endurvekja dúkristur móður sinnar.
Dúkristur Ástu prýddu smásagnasafn hennar Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns sem kom út árið 1961. Listaverkin eru áhrifarík viðbót við blátt áfram og myndrænan texta Ástu. Dökkur liturinn og hvöss form undirstrika tragískan undirtón og oft sjokkerandi viðfangsefni smásagnanna. Myndirnar eru nær allar af fólki og hefur Ásta einstakt lag á að túlka svipbrigði. Grófleiki og kassalaga form einkenna dúkristur Ástu, sér í lagi þegar hún teiknar karlmenn, eins og sjá má á myndum hennar við sögurnar „Sunnudagskvöld til mánudagsmorguns“ og „Gatan í rigningu“, en formin mýkjast þegar hún teiknar konur og sérstaklega börn. Má þar nefna ungu stúlkuna sem dreymdi um betra líf í „Kóngaliljum“ og börnin í „Dýrasögu“ og „Skerplu“. Smásagnasafn Ástu er afar fallegt og heildstætt listaverk sem sýnir að Ásta var ekki síðri myndlistarkona en rithöfundur og er gaman að rýna í texta hennar út frá því samhengi, því oft flæðir myndmálið inn í textann og í sögum hennar má finna margar einstaklega myndrænar og kyngimagnaðar lýsingar.
Í tengslum við leiksyningu Þjóðleikhússins fengu afkomendur Ástu grafíklistamanninn Guðmund Ármann til liðs við sig sem þrykkti 50 eintök af hverri mynd og í júní 2023 var haldin sýning á dúkristunum, ásamt nokkrum vatnslitaverkum sem varðveist hafa eftir Ástu. Sú sýning kemur nú til Akrueyrar og verður opnuð í Hofi þann 25. Janúar 2024.