Fiðringur á Norðurlandi verður haldinn í HOFI þriðja sinn þann 8. maí kl 20. Skrekkur í Reykjavík og Sjálftinn á Suðurlandi eru fyrirmyndir Fiðrings sem er dýrmætur vettvangur fyrir unglingana á Norðurlandi eystra til að láta rödd sína heyrast.
Tíu skólar taka þátt í ár og mætast þeir á úrslitakvöldinu og sýna afrakstur vinnu sinnar á vorönn. Mikil áhersla er lögð á að hugmyndin og útfærslan sé alfarið unglinganna sjálfra og einnig sjá þau um tæknimál og búninga, leikmynd og förðun.
Lýðræði er einn af hornsteinum Fiðrings og unglingarnir taka þátt í öllum ákvarðanatökum. Þannig er valið á listamanni sem kemur fram í dómarahléi ákveðið út frá hvaða lag ungmennin velja sem Fiðringslag. Í ár kusu krakkarnir lagið Skína með Prettyboitjokko sem mætir á svæðið. Einnig senda þau inn tillögur að baksviðspössum og kjósa svo eina tillögu sem er prentuð út og allir fá um hálsinn.
Kynnar kvöldsins verða Akureyringurinn Egill Andrason og Helga Salvör Jónsdóttir en þau útskrifast bæði frá LHÍ í vor.
RÚV mun taka upp atriðin og birta þau á sínum miðlum.
Það er gaman að geta þess að SSNE hefur tryggt verkefninu fjármagn til ársins 2026 en verkefnið er á vegum Menningarfélags Akureyrar að frumkvæði Maríu Pálsdóttur leikkonu sem er verkefnastjóri ásamt Kristínu Sóleyju Björnsdóttur og Heru Jónsdóttur