Sif Margrét Tulinius fiðluleikari og Richard Simm píanóleikari koma nú saman fram í fyrsta skipti í spennandi og metnaðarfullri efnisskrá og flytja 2 stórbrotnar sónötur tónbókmennta 19.aldar, sónötu í A-dúr eftir César Franck og "Kreutzer" sónötu Ludwig van Beethoven. Báðar þessar sónötur eru tileinkaðar stórkostlegum fiðluleikurum þess tíma sem þær voru samdar á, sónata César Franck í A dúr tileinkuð Eugene Ysaÿe og sónata Beethoven tileinkuð Rodolphe Kreutzer. Sif Margrét mun á tónleikunum einnig frumflytja glænýtt og spennandi tónverk eftir Hjálmar H. Ragnarsson, "Partíta fyrir fiðlu".
Sif Margrét og Richard hafa fyrir löngu skipað sér í hóp fremsta tónlistarfólks landsins og hafa bæði oftsinnis komið fram sem einleikarar hérlendis og erlendis.
Tónleikarnir eru hluti af Beethovenhátíð sem Tónlistarfélag Akureyrar stendur fyrir í samvinnu við Menningarfélag Akureyrar. Tónlistarsjóður og Akureyrarbær styrkja tónleikana. Aðgangur er ókeypis en frjáls framlög eru vel þegin.