Söngkonan GDRN og píanóleikarinn Magnús Jóhann hafa komið mikið fram undanfarin ár, bæði sem tvíeyki og með hljómsveit. Þann 16. september 2022 gáfu þau út hljómplötuna Tíu íslensk sönglög. Hún hefur að geyma tíu lög sungin af GDRN við meðleik Magnúsar í útsetningum tvíeykisins. Á efnisskrá plötunnar er fjöldi íslenskra tónlistarperlna eins og Rósin, Hvert örstutt spor, Vikivaki og eitt frumsamið lag, Morgunsól. Hljómplatan hefur notið mikilla vinsælda og var ein mest selda plata síðasta árs. Nú liggur leið þeirra norður en á tónleikum þeirra í Hofi hyggjast þau flytja lög plötunnar í bland við aðrar íslenskar tónlistarperlur sem og lög GDRN. Tónleikagestir geta átt von á huggulegum tónleikum og þeirri hugljúfu stemningu er svífur yfir vötnum plötunnar.
Guðrún Ýr Eyfjörð, betur þekkt sem GDRN, hefur látið mikið á sér kræla í íslensku tónlistarlífi frá því að hún gaf út sína fyrstu breiðskífu, Hvað ef, árið 2018. Sú hljómplata hlaut fjölda tónlistarverðlauna, tilnefningu til tónlistarverðlauna Norðurlanda og mikla athygli. Síðan þá hefur hún sent frá sér fjölda laga í samstarfi við aðra listamenn sem og aðra breiðskífu, GDRN, árið 2020. Seinni breiðskífu sína vann hún m.a í samstarfi við Magnús Jóhann en leiðir þeirra lágu saman í tónlistarskóla FÍH nokkrum árum áður.
Magnús Jóhann hefur verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi undanfarin ár sem píanóleikari, upptökustjóri, tónskáld og ýmislegt fleira fyrir listamenn á borð við Bríet, Bubba Morthens, Friðrik Dór, Aron Can og fleiri. Hann var valinn flytjandi ársins á Íslensku Tónlistarverðlaununum árið 2023. Sömuleiðis hefur hann gefið út þrjár sólóplötur, eina stuttskífu og dúóplötu ásamt Skúla Sverrissyni, bassaleikara.
Aðgangseyrir: Frítt inn á meðan húsrúm leyfir
Íslandsbanki er aðalstyrktaraðili tónleikana.
Tónleikarnir eru unnir í samstarfi við Menningarhúsið Hof.