Fara í efni
Listasumar
Dags Tími
03 .júl '21 18:00

Bassaleikarinn og tónskáldið Ingibjörg Elsa Turchi hefur verið afar sýnileg í íslensku tónlistarlífi síðustu ár og hefur komið fram með mörgum af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar, svo sem Emilíönu Torrini, Bubba Morthens, Teiti Magnússyni og Stuðmönnum svo fátt eitt sé nefnt. Einnig hefur hún samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands en það var frumflutt í apríl 2021 á vegum Ung-Yrkju verkefnis SÍ og Tónverkamiðstöðvar.

Ingibjörg gaf út stuttskífuna Wood/Work árið 2017 þar sem bassinn var í aðalhlutverki. Í júlí 2020 gaf Ingibjörg svo út sína fyrstu plötu í fullri lengd, Meliae, og hélt áfram að víkka út hljóðheim sinn með hjálp hljómsveitar sinnar. Á plötunni ægir saman djassi, tilraunamennsku og naumhyggju í ómþýðri blöndu. Endurtekningar eru í fyrirrúmi. Hljóðfæri á borð við saxófón, gítar og bassa eru afbyggð með hjálp raftækja og síðan byggð upp aftur. Þannig skapa Ingibjörg og félagar einstakan og dáleiðandi hljóðheim þar sem hið kunnuglega verður framandi á ný. Árið 2020 hlaut platan Meliae Kraumsverðlaunin, var valin plata ársins af Morgunblaðinu og straum.is og fékk 5 stjörnur í gagnrýni Morgunblaðsins. Á Íslensku tónlistarverðlaununum 2021 hlaut Ingibjörg sex tilnefningar og hlaut tvenn verðlaun, annars vegar fyrir plötu ársins í flokki Djass-og blústónlistar og fyrir Upptökustjórn í Opnum flokki.

Á fyrirhuguðum tónleikum munu Ingibjörg og hljómsveit leika verk af plötunni Meliae, ásamt nýju efni af plötu sem er í bígerð í bland við spuna.
Fram koma: Ingibjörg Elsa Turchi - Rafbassi Tumi Árnason - Saxófónn Magnús Trygvason Eliassen - Trommur Hróðmar Sigurðsson - Gítar