Einleikstónleikar Erna Vala, píanó Tónleikarnir eru tileinkaðir minningum, góðum og slæmum, hlýjum og kærum. Þeir eru hluti af tónleikaferð Ernu Völu hringinn í kringum landið. Tónleikarnir eru án hlés og um klukkustund að lengd.
Ottorino Respighi: Sei pezzi per pianoforte, P. 044
III. Notturno
Claude Debussy: Estampes, L. 100
I. Pagodes
II. La soirée dans Grenade
III. Jardins sous la pluie
Robert Schumann: Sónata nr. 2 í g-moll, Op. 22
I. So rasch wie möglich.
II. Andantino. Getragen.
III. Scherzo. Sehr rasch und markiert.
IV. Rondo. Presto possible. - Prestissimo, quasi cadenza.
—
Píanósónata Robert Schumanns nr. 2 var sú síðasta af þremur sem hann samdi. Stormasamt verk sem á þó þungamiðju í fallegum en tregablöndnum öðrum kaflanum; útsetningu á eldra sönglagi tónskáldsins Im Herbste, sem fjallar um löngun eftir einhverju sem virðist of fjarri manni (ástinni). Í ljóðinu óskar ljóðmælandi þess að sólin setjist og myrkur næturinnar taki við, svo hlýja dagsbirtunnar verði þess í stað nær ástinni. Hinir kaflar verksins eru fullir ástríðu, ólgu og eldheitum ákafa. Clara Schumann sagði um sónötu Roberts að hún minni sig á margar gleðiríkar stundir, en líka sársaukafullar. Eitthvað sem við eigum líklega öll sameiginlegt er hvernig tónlist tengist okkur í gegnum minningar. Verkin á efnisskrá tónleikanna eru öll tengd þessu þema á einhvern hátt.
—
Erna Vala píanóleikari er meðal virkustu hljóðfæraleikara á landinu. Hún hefur einnig komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum auk þess að vinna til fjölda verðlauna fyrir píanóleik. Þar má nefna heiðursorðuna Hvítu rósina frá forseta Finnlands, Sauli Niinistö, fyrstu verðlaun í efsta flokki EPTA- píanókeppninnar á Íslandi og Unga einleikara. Erna Vala er stofnandi og listrænn stjórnandi tónlistarhátíðarinnar Seiglu sem haldin er árlega í byrjun ágúst í Hörpu. Erna Vala stofnaði einnig menningarfélagið Íslenska Schumannfélagið sumarið 2020 og starfar sem formaður þess. Hún hefur komið fram sem einleikari með hljómsveitum, þar á meðal Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna. Á þessu ári kom hún fram sem einleikari á sjónvarpstónleikum SÍ: Klassíkin okkar, undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Síðastliðið ár hefur hún einnig spilað einleikstónleika við ýmsar tónleikaraðir eins og Tíbrá, Menningu á miðvikudögum og Beethoven 251 í Salnum, Velkomin heim í Hörpu, í Stykkishólmi, á Ísafirði og Akureyri. Hún kom fram sem kammerpíanóleikari við ýmsar hátíðir og tónleikaraðir, þar má nefna Sígilda sunnudaga í Norðurljósum, Menningarnótt í Hörpu, Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni og Ung Nordisk Musik og Nordic Music Days. Henni hefur boðist að vera gestalistamaður ýmissa hátíða, þar má nefna Við Djúpið á Ísafirði, Fulbright Arctic Initiative í Washington D.C., Albignac Piano Festival í Frakklandi og Trinity Laban-samtímalistahátíðina í London. Erna Vala lauk meistaragráðu í píanóleik við Síbelíusarakademíuna í Helsinki undir leiðsögn Hömsu Juris vorið 2019. Hún hóf doktorsnám sama ár við USC í Los Angeles sem Fulbright-styrkþegi undir handleiðslu Bernadene Blaha. Áður lauk hún bakkalárgráðu og diplómu í píanóleik við Listaháskóla Íslands hjá Peter Máté.
Tónleikarnir njóta styrkja frá Tónlistarsjóði Rannís, Launasjóði listamanna og eru haldnir af Íslenska Schumannfélaginu.