Fara í efni
Dags Tími
08 .feb '20 17:00

The Song of Extinct Birds/Söngur útdauðra fugla

Jazz-svíta fyrir kvennakór og jazz-kvartet

 

Flytjendur eru Kvennakórinn Embla ásamt Phillip J Doyle, saxofónn, Helga Kvam, píanó, Stefán D Ingólfsson, bassi og Halldór G Hauksson, trommur, stjórnandi er Roar Kvam.

Hugmyndin að verkinu fæddist vorið 1990 eftir samtal Heikki Sarmanto og Aina Swan Cutler þar sem þau ræddu orð ljóðskáldsins Pentti Saarikoski; Í vindinum má heyra söng útdauðra fugla. Út frá því sömdu þau þetta verk sem byrjar í fjarlægri fortíð, ferðalag í gegnum tíma allt til nútímans og svo inn í framtíðina.

Vinnu við The Song of Extinct Birds var lokið árið 2002 og verkið helgað Harvard háskóla í minningu Henry Harrington Cutler, sem var mikill áhugamaður um fugla.

Verkið er nokkurskonar umhverfis-kantata með skýrri áherslu á umhverfismál í textunum. Kórinn þjónar hlutverki sögumannsins og hljómsveitin spinnur frjálst í kringum söguna af þróun heimsins.

Tónskáldið Heikki Sarmanto (f.1939) hefur lengi verið skær stjarna í finnska jazz-heiminum. Hann nam við Sibelíusarakademíuna í Helsinki, Berklee College of Music í Boston og hefur hlotið mörg verðlaun bæði í Finnlandi og um allan heim. Hann er þekktur fyrir að gera tilraunir með allskyns stíla og tegundir tónlistar; verk hans eru m.a. fyrir jazzhljómsveitir, stórsveitir, sinfóníuhljómsveitir og óperur og er safn sönglaga fyrir einsöng og kóra eftir hann víðfemt.

Aina Swan Cutler (f. 1914) hefur samið tugi texta og gert enskar þýðingar af finnskum textum. Hún stofnaði finnskan tónlistarsjóð við Harvard háskóla og finnska tónlistarflytjendasjóðinn og Jorma Hynninen félagið við háskólann í Minnesota. Henni voru veitt heiðursverðlaun reglu Hvítu Rósarinnar af finnska ríkinu árið 1995.